Lífið

Kirkja í Texas sögð hafa sýnt söng­­leikinn „Hamilton“ í leyfis­­leysi

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Lin-Manuel Miranda á sviði á Broadway eftir síðustu sýningu sína í hlutverki Alexander Hamilton.
Lin-Manuel Miranda á sviði á Broadway eftir síðustu sýningu sína í hlutverki Alexander Hamilton. Getty/Bruce Glikas

Kirkja í Texas er sögð hafa breytt og bætt við texta í uppsetningu á hinum geysi vinsæla Broadway söngleik „Hamilton.“ Kirkjan er sögð hafa bætt við atriði þar sem Alexander Hamilton iðrist synda sinna og biðji Guð fyrirgefningar.

Söngleikurinn „Hamilton“ eftir Lin Manuel Miranda er þekktur um allan heim fyrir nýstárlega útfærslu á hinni hefðbundnu söngleikjaformúlu en tónlist söngleiksins er að mestu leyti rapp. Miranda sótti innblástur í líf og störf Alexander Hamilton en hugmyndina fékk hann eftir að hafa lesið ævisögu Hamilton eftir Ron Chernow.

Hlusta má á fyrsta lag söngleiksins, nefnt „Alexander Hamilton“ hér að ofan.

Textum laga í fyrrnefndri uppsetningu kirkju í McAllen í Texas er sagt hafa verið breytt á þann veg að Alexander Hamilton og kona hans Eliza Schuyler segi Jesú hafa bjargað þeim. Kirkjan sýndi söngleikinn 5. og 6. ágúst síðastliðinn.

Upptöku af breyttum textabút söngleiksins má sjá hér að neðan.

Einnig hafi sýningunni lokið á því að samkynhneigð hafi verið líkt við það að vera með fíknivanda eins og alkóhólisma.

Í umfjöllun Washington Post um málið er einnig vitnað í talsmann söngleiksins sem segir kirkjuna ekki hafa haft leyfi til þess að flytja söngleikinn.

Lin-Manuel Miranda tjáði sig á Twitter um uppsetningu kirkjunnar og þakkaði þeim sem hafi haft samband vegna hennar, fyrir aðstoðina. Hann sagði lögfræðinga nú sjá um málið.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.