Sport

„Út frá gildunum okkar var þetta ekki góður leikur“

Andri Már Eggertsson skrifar
Björn Sigurbjörnsson var ánægður með stigin þrjú
Björn Sigurbjörnsson var ánægður með stigin þrjú Vísir/Diego

Selfoss vann 2-0 sigur á Þór/KA Í Bestu deild-kvenna. Þetta var fyrsti deildarsigur Selfoss síðan 1. júní síðastliðinn og var Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfyssinga, ánægður með sigurinn eftir leik. 

„Ég reikna með að það hafi verið mikil gleði í klefanum eftir leik. Það var léttir að brjóta ísinn snemma í leiknum gegnum spil. Eftir markið fórum við að spila löngum boltum sem við ætluðum okkur ekki að gera. Við héldum vörninni og skoruðum síðan gullfallegt mark í seinni hálfleik,“ sagði Björn Sigurbjörnsson eftir leik. 

Brenna Lovera kom Selfossi yfir á fimmtu mínútu en eftir mark hennar gerðist lítið sem ekkert í fyrri hálfleik.

„Ætli það hafi ekki talsvert með það að gera að það hefur verið markaþurð hjá okkur og langt síðan við unnum síðast leik. Maður stjórnar ekki alltaf tilfinningum sínum og það er partur af þroskaferlinu hjá þessum stelpum.“

Gestirnir frá Akureyri fengu töluvert af færum í síðari hálfleik til að jafna leikinn og Björn hefði viljað sjá sitt lið spila boltanum betur.

„Ég hefði viljað sjá okkur rólegri á boltann. Út frá okkar gildum er þetta einn lélegasti leikur sem við höfum spilað en hins vegar áttum við fína kafla og vorum að skapa okkur færi gengum spil sem við höfum verið að æfa. Við töpuðum samt sem áður gildunum okkar þar sem við fórum að sparka boltanum langt en fínt að geta gert bæði þar sem það var langt síðan við unnum síðast leik,“ sagði Björn Sigurbjörnsson að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.