Menning

Heldur á vit ævintýranna á Ítalíu

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Linda Jóhannsdóttir er eigandi Pastel paper en stendur fyrir myndlistarsýningunni Ástarljóð sem opnar í dag.
Linda Jóhannsdóttir er eigandi Pastel paper en stendur fyrir myndlistarsýningunni Ástarljóð sem opnar í dag. Aldís Pálsdóttir

Listakonan Linda Jóhannsdóttir hefur komið víða að í hinum skapandi heimi og er á leið til Flórens í framhaldsnám í listum. Hún stendur fyrir sýningunni Ástarljóð sem opnar í dag klukkan 17:00 í Gallerí Sólveig Hólm. Linda hefur aðallega unnið list sína á pappír og er eigandi og hönnuður merkisins Pastelpaper en á þessari sýningu sýnir hún í fyrsta skipti stór abstrakt verk á stiga.

Innri þörf til að skapa

„Innblásturinn kemur alls staðar frá. Ég elska að labba um í gömlum hverfum bæði hérna heima og erlendis og skoða litasamsetningar á húsum og umhverfum, form og áferðir. 

Svo er klárlega ákveðin innri þörf til að skapa sem ýtir manni áfram. Það er eiginlega ekki hægt að sleppa því, þessi sýning til dæmis tróð sér að vissu leyti fram þegar ég ætlaði að vera gera annað, en þörfin fyrir það að mála var sterkari,“

 segir Linda í samtali við blaðamann.

Sýningin markar tímamót í lífi Lindu.

„Hún er ákveðið uppgjör, hvert verk er partur í ástarljóði sem verður að sýningu. Sýningin er ákveðið bless í bili og góður punktur áður en við höldum á vit ævintýranna á Ítalíu og lærum eitthvað nýtt.“

Spjall í heita pottinum leiddi til ákvörðunarinnar

Linda ákvað að leita að skóla úti þar sem hana hefur alla ævi langað að búa á Ítalíu ásamt því að langa í framhaldsnám í listum. „Ég fann skóla og eftir langt spjall í heita pottinum í sumarbústaðnum með manninum mínum ákvað ég að sækja um og sjá svo til hvort ég kæmist inn.“

Hún komst inn og gott betur þar sem hún fékk 50% námsstyrk frá skólanum. Hún segir inntökuferlið hafa snúist um möppu, ferilskrá og viðtöl.

„Það var því ekki aftur snúið og flytjum við fjölskyldan til Ítalíu í lok mánaðarins. Sýning er því til að kveðja í bili, er sölusýning og mun salan á verkum fara upp í skólagjöldin mín.“

Mun hún deila ævintýrunum á Instagram reikningi sínum sem hún segir helgaðan listinni.

„Opnunin er í dag frá klukkan 17:00 til 20:00 í Gallerí Sólveig Hólm, Faxafeni 10 og eru allir velkomnir en það verða léttar veitingar og gleði,“ segir Linda að lokum. Sýningin er opin fram á næsta sunnudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×