Tónlist

Kvenkyns rokkarar slá til ærandi veislu fyrir augu og eyru gesta

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Mammút og Kælan Mikla sameina krafta sína með tónleikum í september.
Mammút og Kælan Mikla sameina krafta sína með tónleikum í september. Aðsend

Hljómsveitirnar Mammút og Kælan Mikla tilkynntu á dögunum tónleika sem haldnir verða í Gamla Bíói 16. september næstkomandi. Er þetta í fyrsta sinn sem böndin taka höndum saman þar sem þau munu spila það helsta af sínum ferlum í kraftmikilli, þungri og ærandi veislu fyrir augu og eyru gesta. Blaðamaður tók púlsinn á Ásu Dýradóttur í Mammút.

Gróska í íslenskum kvenna rokkurum

Sérstakir gestir munu einnig koma fram sem verða þó tilkynntir síðar en hljómsveitirnar eiga það sameiginlegt að vera kvenkyns rokkbönd, enda er mikil gróska hérlendis á slíkum hljómsveitum.

Mammút er margverðlaunuð rokksveit sem hefur náð árangri langt úr fyrir landsteinana og plötur þeirra hafa hlotið lof stærstu tónlistartímarita heims. Er þetta í fyrsta sinn í langan tíma sem sveitin kemur fram á heimavelli og eru eflaust margir aðdáendur sem hlakka mikið til.

Kælan Mikla var stofnuð árið 2013 í kjölfar sigurs á ljóðaslammi Reykjavíkur. Næstu árin héldu þær áfram að hasla sér völl í grasrótar senu Íslands og svo fór ferill hljómsveitarinnar á flug utan landsteinana. Á seinustu 9 árum hafa þær ferðast víða um heim og gefið frá sér fjórar breiðskífur.

Þá er áhugavert að segja frá því að Robert Smith, forsprakki hljómsveitarinnar The Cure, er stór aðdáandi og hefur bókað Kæluna Miklu á fjölda hátíða sem hann hefur lagt hönd á að skipuleggja. Þar hafa þær komið fram með hljómsveitum á við Pixies, Slowdive og Deftones ásamt því að opna fyrir Placebo í London. Kælan Mikla gaf út sína fjórðu plötu, Undir Köldum Norðurljósum, á seinasta ári og fjallar hún að mestu um þjóðsögur og ævintýri en galdrar og dulúð einkenna sveitina að mörgu leyti.

Samferða í senunni

„Við erum búin að vera samferða lengi í senunni og alltaf verið aðdáendur hverrar annarrar,“ segir Ása Dýradóttir meðlimur hljómsveitarinnar Mammút um samstarf þeirra við Kæluna Miklu. „Við höfum oft spilað saman á tónlistarhátíðum en aldrei haldið saman okkar tónleika.“

Báðar hljómsveitir hafa eytt miklum tíma erlendis síðastliðinn áratug og því var ekkert annað í stöðunni en að grípa tækifærið núna.

„Það er svo gaman að vera á landinu á sama tíma, okkur hefur langað að gera þetta lengi og ákváðum að kýla á þetta.“

Neglugigg

Mammút gaf út plötuna Ride The Fire í miðjum Covid faraldri og reyndu í kjölfarið að halda útgáfutónleika, sem reyndist þeim erfitt sökum faraldursins þar sem samkomutakmarkanir voru stöðugt að breytast.

„Það varð aldrei neitt af útgáfutónleikunum en okkur langaði að halda almennilegt neglugigg núna. 

Við spilum auðvitað lög af nýju plötunni en þetta eru ekki útgáfutónleikarnir, þeir koma síðar. Við erum svo spennt að spila með Kælunni og okkur finnst þær svo töff,“ segir Ása spennt. Hún bætir við að ánægjulegt sé að sjá mikla grósku í ungum og flottum hljómsveitum í dag og að metal rokkið sé með sanni að koma aftur inn í mainstreamið

Eftir Covid finnst Ásu ómetanlegt að æfa og koma fram með hljómsveitinni og segist taka eftir því að aðrir séu á sama máli.

„Covid hefur gert það að verkum að fólk vill fara á æfingar saman og þá er best að spila rokk og ról.“

Miðasala á tónleikana er hafin og nánari upplýsingar má finna hér


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×