Innlent

Far­þegi rif­beins­brotnaði á land­göngu­brú Hrís­eyjar­ferjunnar

Atli Ísleifsson skrifar
Hríseyjarferjan Sævar við landfestar í Hrísey. Atvikið sem um ræðir átti sér þó stað í höfninni á Árskógssandi.
Hríseyjarferjan Sævar við landfestar í Hrísey. Atvikið sem um ræðir átti sér þó stað í höfninni á Árskógssandi. Vísir/Atli

Farþegi í Hríseyjarferjunni Sævari rifbeinsbrotnaði á landgöngubrú ferjunnar eftir að hnykkur kom á hana þegar verið var að hífa fiskikör í land í höfninni á Árskógssandi.

Atvikið átti sér stað í september síðastliðinn, en rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur nú birt skýrslu um málið.

Þar segir að skipverjar hafi verið að hífa fiskikör í land, en þegar halli kom á skipið vegna hífinga hafi landgöngubrúin farið upp úr falsi sem hún lá í.

Í atvikalýsingunni segir að skömmu síðar hafi farþegi gengið eftir landgöngubrúnni og hnykkur komið á hana þannig að farþeginn hafi fallið á handrið brúarinnar. Landgöngubrúin féll þá um tuttugu til þrjátíu sentimetra og hékk í vír. Farþeginn var þá fluttur á sjúkrahús og reyndist rifbeinsbrotinn.

Enginn búnaður til að hindra umferð

Við rannsókn á málinu kom í ljós að farþeginn hafi farið um borð í ferjuna á meðan var að hífa körin í land, en svo farið aftur upp á bryggju. Skipið stoppi öllu jöfnu í um fimmtán mínútur áður en það leggur af stað aftur. Að sögn skipstjóra hafi þeir ekki viljað að farið væri um borð á meðan verið væri að lesta og losa skipið. 

Enginn búnaður hafi hins vegar verið á endum landgöngubrúarinnar (hlið eða keðjur) til að hindra umferð um landganginn.

Rannsóknarnefndin segir að orsök slyssins hafi verið að farþegi hafi gengið um landgöngubrú eftir að hún hafði losnað úr falsi. Engar verklagsreglur væru um borð í skipinu um umferð farþega meðan lestað er og losað og bendir nefndin á mikilvægi þess að settar séu verklagsreglur um umferð farþega.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×