Tíska og hönnun

Sígildri hönnun hampað á mjólkurfernum

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Skemmtilegt verkefni í tilefni af HönnunarMars í ár.
Skemmtilegt verkefni í tilefni af HönnunarMars í ár.

Í tilefni af HönnunarMars, sem í ár breiðir úr sér um höfuðborgarsvæðið dagana 4. til 8. maí, hefur Mjólkursamsalan endurvakið klassíska íslenska hönnun á mjólkurfernunum.

Blómafernur hönnuðanna Kristínar Þorkelsdóttur, Tryggva T. Tryggvasonar og Stephen Fairbairn eru komnar tímabundið í verslanir og munu þær án efa vekja upp nostalgíutilfinningu hjá mörgum.

Hroki á ekki heima í hönnun

„Blómafernurnar, skreyttar með myndefni eftir Eggert Pétursson úr bókinni Íslensk flóra með litmyndum, komu upphaflega á markað árið 1985 þar sem Mjólkursamsalan vildi gefa neytendum blóm í tilefni af 50 ára afmæli fyrirtækisins. Kristín Þorkelsdóttir, hannaði útlit fernanna, en hún er margverðlaunaður hönnuður og hlaut meðal annars Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands árið 2020 fyrir ómetanlegt brautryðjendastarf á sviði grafískrar hönnunar á Íslandi. Líkt og með mjólkurfernurnar eru mörg verka hennar hluti af daglegu lífi landsmanna, meðal annars peningaseðlarnir sem hún hannaði ásamt Stephen Fairbairn,“ segir í tilkynningu á vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs. 

„Grafísk hönnun er fjölbreytt fag sem byggir á túlkun skilaboða hvort heldur tilfinninga, fræðslu, eða staðreynda. Verkefni, bæði stór og smá, verðskulda að hönnuðir leggi sig alla fram um grípandi túlkun. Hroki á ekki heima í hönnun. Ekkert verk er svo smávægilegt að viðhorfið „nógu gott” ráði för og má aldrei heyrast,“segir Kristín Þorkelsdóttir hönnuður.

„Blómafernurnar verða fáanlegar í verslunum landsins út maímánuð svo við hvetjum áhugasama til að tryggja sér eintak og fagna íslenskri hönnun með okkur á HönnunarMars dagana 4.-8. maí.“

Nánar má lesa um dagskrá HönnunarMars í ár á vef hátíðarinnar.


Tengdar fréttir

DesignTalks Reykjavík snýr aftur á HönnunarMars í ár

HönnunarMars fer fram 4. til 8. maí næstkomandi. Í dag var tilkynnt að alþjóðlega ráðstefnan og lykilviðburður HönnunarMars, DesignTalks, verður hluti af hátíðinni í ár eftir að hafa verið í dvala vegna heimsfaraldursins. 

Sól Hansdóttir er fatahönnuður Reykjavíkurdætra: Kvenkyns erkitýpur fá að skína

Listakonan og fatahönnuðurinn Sól Hansdóttir er með mörg járn í eldinum og býr yfir mikilli sköpunargleði. Hennar nýjasta verkefni er að hanna fötin sem Reykjavíkurdætur klæðast í Söngvakeppninni en Sól er þekkt fyrir frumlega hönnun sem vekur athygli út fyrir landsteina. Blaðamaður heyrði í Sól og fékk að heyra nánar frá hennar listræna ferli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×