Innlent

Ráðinn ráð­gjafi á skrif­stofu Sam­einuðu þjóðanna um eyði­merkur­samninginn

Atli Ísleifsson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson lét af þingmennsku síðasta haust.
Gunnar Bragi Sveinsson lét af þingmennsku síðasta haust. Vísir/Vilhelm

Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og þingmaður, hefur tekið við starfi ráðgjafa framkvæmdastjóra á skrifstofu Sameinuðu þjóðanna um samning stofnunarinnar um varnir gegn eyðimerkurmyndun. Stofnunin er með aðsetur í þýsku borginni Bonn.

Kjarninn segir frá málinu og að Gunnar Bragi hefði sótt um starf hjá stofnuninni síðasta sumar, farið í viðtal í október og svo boðist starfið fyrr í þessum mánuði. Er hann ráðinn til eins árs til að byrja með og mun þar starfa sem sérstakur ráðgjafi framkvæmdastjórans Ibramhim Thiaw.

Eyðimerkursamningurinn svokallaði er einn af þremur samningum Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál, ásamt samningi til að draga úr loftslagsbreytingum og svo samningi um verndun líffræðilegrar fjölbreytni, en Ísland er aðili að þeim öllum og styður Ísland Eyðimerkursamninginn meðal annars í gegnum Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna.

Gunnar Bragi sóttist ekki eftir endurkjöri í þingkosningunum í september eftir tólf ára þingsetu – fyrst fyrir Framsóknarflokk og síðar Miðflokk. Í frétt Kjarnans segir að Gunnar Bragi hafi stundað nám í Háskólanum á Bifröst frá því að þingmennskunni lauk, þó að óljóst sé á þessari stundu hvað verði um framhaldið þar. Hann sé þegar fluttur út, en fjölskyldan enn heima.

Gunnar Bragi var utanríkisráðherra á árunum 2013 til 2016 og sjávar- og landbúnaðarráðherra á árunum 2016 til 2017.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×