Tónlist

Glænýtt tónlistarmyndband hjá hljómsveitinni Vök: „Eigum það til að grafa dálítið dýpra í hlutina“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Hljómsveitin Vök sendi frá sér tónlistarmyndband í dag við lagið Lose Control.
Hljómsveitin Vök sendi frá sér tónlistarmyndband í dag við lagið Lose Control. Dóra Dúna/Aðsend

Hljómsveitin Vök sendi frá sér lagið Lose Control fyrr í dag ásamt glænýju tónlistarmyndbandi.

Blaðamaður heyrði í meðlimum hljómsveitarinnar og fékk að spyrja út í innblástur lagsins

Yndislega áreynslulaust

„Lose Control er eitt af þessum lögum sem var svo ótrúlega áreynslulaust í bígerð. Það er svo yndislegt þegar það gerist, eins og lagið sé að biðja um að komast í heiminn.

Upprunalega er lagið einfaldlega ég að fantasera um kærustuna mína og hvað það er unaðslegt að vera með konu.

En við Einar eigum það til að grafa dálítið dýpra í hlutina. Við fundum örlítið dimmari túlkun á laginu sem kemur fram í myndbandinu en fólki er að sjálfsögðu velkomið að túlka lagið eins og því sýnist,“ segir Margrét Rán, söngkona Vök.

Persónuleg saga

Í textanum heldur Margrét áfram með persónulega sögu sína um tímabilið þar sem hún var að horfast í augu við kynvitund sína.

„Myndbandið sem fylgir laginu sýnir karakter sem hefði auðveldlega getað verið ég á ákveðnu tímabili í lífi mínu,“ segir Margrét Rán. Hún segir einnig magnað að sjá leikkonuna Írisi Tönju túlka þennan karakter í tónlistarmyndbandinu.

Mynbandið var gert af Hilmi Berg og Einari Eyland og framleitt af Tjarnargötunni. Meðlimir Vakar eru Margrét Rán, Einar Stef og Bergur Einar.

Ný plata væntanleg

Í viðtali við Bylgjuna í morgun segir hljómsveitin að ný plata sé væntanleg í haust. Viðtalið má finna hér. Þau nýttu tímann sem gafst í Covid faraldrinum í hin ýmsu verkefni og tónlistar sköpun. Margrét Rán samdi meðal annars tónlist fyrir heimildarmynd og segjast þau hafa notið þess að vinna við ný og skemmtileg verkefni.

Vök gefa út undir eigin merkjum á Íslandi og alþjóðlega hjá kanadíska fyrirtækinu Nettwerk. Við þessa nýju plötu ákváðu þau í fyrsta skipti að vinna plötuna alveg sjálf. Fyrir síðustu tvær plötur unnu þau með utanaðkomandi pródúsent en nú vildu þau prófa að gera þetta sjálf þar sem þau fundu að ákveðið öryggi var komið til þeirra. Bergur, trommari hljómsveitarinnar, vann þetta með þeim og fengu þau til liðs við sig tvo aðila við að mixa plötuna, hinn breska David Ranch og Friðfinn Oculus. Segja þau heilbrigt að einhver annar aðili komi að loka touchinu, sem gefur verkinu ákveðna dýpt.

Þau segja mikilvægt að vinna með alls konar fólki þar sem það er svo lærdómsríkt.

 Ég held að maður sé í slæmum málum ef maður hættir að læra. Þá er held ég bara lífið orðið svolítið leiðinlegt, 

segir Einar Stef og verður blaðamaður að fá að taka undir með honum.


Tengdar fréttir

Lagið varð til eftir jarðarför í skrítnum aðstæðum

Hljómsveitin VÖK sendir frá sér nýtt lag í dag. Nýja smáskífan sem nefnist, No Coffee at the Funeral, eða Ekkert kaffi í jarðarförinni er hjartnæmt lag sem varð til eftir að afi Margrétar Ránar lést árið 2020.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×