Innlent

Óttast mikið álag um helgina: „Nú verður þjóðin eins og kýr á vorin“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala, segir mikið álag nú á Landspítala. 
Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala, segir mikið álag nú á Landspítala. 

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala, segir ljóst að aukið álag verði á spítalanum um helgina þegar engar takmarkanir vegna Covid verða í gildi. Reynslan sýnir að í kjölfar afléttinga verði veldisvöxtur á fjölda tilfella í samfélaginu sem hefur síðan áhrif á spítalann.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að frá og með föstudeginum 25. febrúar yrði öllum sóttvarnatakmörkunum aflétt, bæði innanlands og á landamærunum.

Aðspurður um hvort að hann hefði áhyggjur af því hvernig ástandið á spítalanum verði um helgina segir Már svo vera. Ætla má að fjöldi fólks fari til að mynda út á lífið.

„Nú verður þjóðin eins og kýr á vorin að sletta úr klaufunum, þannig að það er líka mjög mikið álag á bráðamóttökuna vegna þess að þá verða slys og annað slíkt,“ segir Már.

Már segir nú þegar mikið álag á spítalanum og það sé tvísýnt hvort spítalinn ráði við stöðuna ef hún versnar mikið.

„Við erum náttúrulega uggandi um það að hann muni ekki þola það en auðvitað verður tíminn að leiða það í ljós, en staðan eins og hún er í dag er uggvænleg á spítalanum,“ segir Már.

Hann vísar til þess að spítalinn sé nú með lélegan aðbúnað, mörg verkefni fram undan og mikil mannekla.

„Til samanburðar við það sem gerðist síðast þá fór fjöldi tilfella í veldisvöxt í samfélaginu þegar að aflétting var og ég held að það geti gerst aftur,“ segir Már. „Þá þýðir það aukið álag á spítalann sem að nú þegar er við þanþol þannig það er það sem við óttumst mest.“

Meðal þeirra takmarkanna sem verður aflétt eftir rúman sólarhring eru reglur um einangrun Covid-sýktra. Már segir mjög brýnt að fólk hlusti á líkama sinn og sé heima sé það veikt en fólk gæti kynnt sér allt um veikindin á vef Heilsugæslunnar, Landlæknis og Landspítala.

„Þetta tekur fimm til tíu daga og þetta er eins og venjuleg pest hjá langflestum,“ segir Már.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×