Sport

Sturla laus úr einangrun en enn í kapphlaupi við tímann

Sindri Sverrisson skrifar
Sturla Snær Snorrason getur farið að æfa sig að nýju eftir að hafa verið lokaður inni frá því á laugardaginn.
Sturla Snær Snorrason getur farið að æfa sig að nýju eftir að hafa verið lokaður inni frá því á laugardaginn. ÍSÍ

Skíðakappinn Sturla Snær Snorrason losnaði í dag úr einangrun á Vetrarólympíuleikunum í Peking, eftir að hafa greinst með kórónuveirusmit síðastliðinn laugardag.

Sturla nær því mögulega að keppa í stórsviginu um helgina, aðfaranótt sunnudags að íslenskum tíma, en hann er þó enn í sóttkví samkvæmt tilkynningu frá ÍSÍ.

Samkvæmt reglum leikanna má Sturla nú hefja æfingar að nýju og undirbúa sig fyrir keppni þrátt fyrir að vera enn í sóttkví og greinast enn jákvæður á PCR-prófum.

Sturla var annar af fánaberum Íslands á setningarathöfn leikanna síðastliðinn föstudag en fór svo að finna fyrir einkennum.

Samkvæmt tilkynningu frá ÍSÍ var Sturla fluttur á sjúkrahús í Peking eftir að hann greindist, þar sem að hann var með einkenni. Hann er enn á batavegi og niðurstöður PCR-prófa eru enn jákvæðar.

Sturla þarf að sýna fram á neikvætt próf til að mega keppa, svo hann er enn í kapphlaupi við tímann.

Sturla Snær Snorrason er á sínum öðrum Vetrarólympíuleikum en upplifunin nú hefur verið gjörólík frá árinu 2018 í Pyeongchang í Suður-Kóreu.Getty/Michael Kappeler

Hann er skráður til keppni í stórsvigi aðfaranótt sunnudags, eins og fyrr segir, og í svigi aðfaranótt 16. febrúar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×