Valsliðið vann þá 12-0 sigur á KR á Origo vellinum á Hlíðarenda og nýliðarnir áttu fá svör á móti sterku liði meistaranna.
Á Instagram síðu Valsmanna þá var talað um að þær Ásdís Karen Halldórsdóttir og Sólveig Jóhannesdóttir Larsen hefðu báðar skorað þrennu í leiknum en dómarinn var ekki sammála því. Báðar voru skráðar með tvö mörk en hin mörkin voru skráð sem mark Málfríðar Önnu Eiríksdóttur og sem sjálfsmark.
Mist Edvardsdóttir og Ída Marín Hermannsdóttir komu Valsliðinu í gang með því að skora báðar tvennu á fyrsta rúma hálftímanum en fimmta og síðasta markið fyrir hálfleik var sjálfsmark.
Bryndís Arna Níelsdóttir, sem var að spila sinn fyrsta mótsleik fyrir Val, skoraði tvö mörk í seinni hálfleiknum eins og þær Ásdís og Sólveig.
KR-liðið hafði spilað einn leik í Reykjavíkurmótinu en liðið vann þá 4-2 sigur á Fram. KR-konur endurheimtu sæti sitt í úrvalsdeildinni síðasta sumar með því að vinna 1. deildina.
Þetta var fyrsti leikur Valskvenna á Reykjavíkurmótinu því leik liðsins á móti Víkingi á mánudagskvöldið var frestað.