Innlent

Nær 300 svartfuglar fundist dauðir á Suðausturlandi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjöldadauði sjófugla er ekki óþekkt fyrirbæri.
Fjöldadauði sjófugla er ekki óþekkt fyrirbæri. Vísir/Vilhelm

Á dögunum fannst mikill fjöldi svartfugla dauður á Suðausturlandi. Matvælastofnun hefur ákveðið að láta rannsaka sýni úr fuglunum á Tilraunastöð HÍ að Keldum, meðal annars með tilliti til fuglaflensu.

Frá þessu er greint á vefsíðu MAST en þar segir að starfsfólk Náttúrustofu Austurlands hafi gengið fjörur og safnað hræjum til rannsóknar. Mikið sé um fuglaflensu í Evrópu um þessar mundir, bæði í villtum fuglum og alifuglum, en þó sé ólíklegt að fuglaflensusmit valdi fjöldadauða í villtum fuglum.

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins í dag hafa að minnsta kosti 273 hræ fundist í fjörum frá Reyðarfirði að Berufirði.

Í tilkynningu MAST segir að samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun hafi áður orðið vart fjöldadauða sjófugla. Síðasti stóri atburðurinn hafi átt sér stað veturinn 2001 til 2002, þegar tugir þúsunda af langvíu og stuttnefju drápust í hafinu umhverfis landið. Rannsóknir leiddu í ljós að fuglarnir hefðu líklegast drepist úr hungri.

Matvælastofnun segir hins vegar ekki hægt að útiloka að fuglaflensa sé til staðar í villtum íslenskum fuglum yfir veturinn og að hafa beri samband við MAST ef villtur fugl finnst dauður, nema augljóst sé að hann hafi drepist af slysförum. Best sé að taka hann upp í einnota hönskum og setja hann í plastpoka.

Tilkynning MAST.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.