„Þetta eru alls ekki ólík veður en það er smá bil á milli þeirra,“ segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við fréttastofu.
Fyrsta viðvörunin tekur gildi klukkan 22 í kvöld á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa og Suðurlandi þar sem reiknað er með suðvestan 15-23 metrum á sekúndu með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.
Gengur hratt yfir
Klukkan 23 bætist gul viðvörun við Breiðafjörð og á miðnætti nær viðvörunin einnig yfir Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra. Detta þær svo ein af öðrum út til klukkan fimm í nótt þegar landið verður viðvörunarlaust.

„Seint í kvöld hvessir duglega á vestanverðu landinu. Það fylgir þessu slydda eða snjókoma í svolítinn tíma. Þetta gengur hratt yfir. Það verður skítaveður í kannski einhverja tvo, þrjá, fjóra tíma á hverjum stað, ekki mikið meira,“ segir Birgir Örn.
Umferð gæti spillst
Klukkan níu á morgun hefst önnur umferð af gulum viðvörunum. Þá er varað við suðvestan stomi og éljum á Breiðafirði með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.
Klukkan tólf á morgun bætast gular viðvaranir við á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, með sömu eða svipuðum veðurskilyrðum og varað er við á Breiðafirði um morguninn.
Þessar viðvaranir gilda fram á fimmtudag.
„Það hvessir aftur og um hádegi á morgun er kominn hvassviðri eða stormur og éljagangur á vestanverðu landinu,“ segir Birgir Örn.
Búast má við einhverjum samgöngutruflunum vegna veðursins en Vegagerðin hefur varað við því að færð geti spillst á Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði.