Menning

Bubbi óttast ekki neitt: „Ég er bara gleði­gjafi“

Viktor Örn Ásgeirsson og Snorri Másson skrifa
Bubbi Morthens fagnaði undanþágu frá sóttvarnartakmörkunum í vikunni.
Bubbi Morthens fagnaði undanþágu frá sóttvarnartakmörkunum í vikunni. Vísir/Stöð 2

Bubbi Morthens hélt árlegu Þorláksmessutónleika sína í Eldborg í Hörpu fyrr í kvöld. Eldborgarsalurinn tekur um fimmtán hundruð manns í sæti en uppselt var á tónleikana. Tónleikarnir voru sem sagt fjölmennir en óvissa ríkti um tónleikahaldið þegar kynntar voru hertar takmarkanir innanlands vegna kórónuveirufaraldursins fyrr í vikunni. Nokkrir tónleikahaldarar fengu sérstaka undanþágu frá gildandi sóttvarnareglum, Bubbi þar með talinn.

Bubbi sagðist gríðarlega vel stemmdur þegar fréttastofa náði tali af honum fyrr í kvöld og sagði að Eldborgarsalurinn kæmi til með að fyllast af ást og kærleika. Aðspurður sagðist Bubbi ætla að gleðja fólk, bæði gesti í salnum og heima í stofu en tónleikunum var streymt á netinu. Hann bætti við að til hjálpaði að vera með besta gítarinn í bransanum.

Óttastu umræðuna, það eru sumir eitthvað pirraðir?

„Sumir eru pirraðir. Þjóðfélagið er á snúningi, við erum búin að vera vör við það í marga mánuði. Nei, nei. Ég óttast ekki neitt, ég hef ekki gert neitt af mér. Bara af og frá. Ég er bara gleðigjafi.“

Aðspurður segist Bubbi ætla að gleðja fólk á þessum erfiðu tímum og hvetur fólk til að syngja með undir grímunum: „Menn geta mumlað bak við grímurnar, menn mega ekki taka grímurnar niður að syngja en þeir geta mumlað,“ segir Bubbi og hlær.

Við komumst í gegnum þetta eftir allt saman, er það ekki?

„Sannarlega, klárlega. Og gleðileg jól öll sömul þið heima, bara ást og friður til ykkar allra.“


Tengdar fréttir

Bubbi fær undan­þágu á Þor­láks­messu: „Ég trúi á jóla­sveininn“

Þorláksmessutónleikar Bubba Morthens fara fram með óbreyttu sniði í Hörpu á fimmtudag þrátt fyrir tilkomu hertra samkomutakmarkanna. Hefur fengist undanþága frá reglunum á grundvelli þess að tónleikahaldarar hafi ekki haft rými til að bregðast við breytingunum með svo stuttum fyrirvara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×