Veður

Ró­legra veður í kortunum eftir „heiðar­legan“ storm gær­dagsins

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti um og yfir frostmarki.
Hiti um og yfir frostmarki. Vísir/Vilhelm

Mun rólegra veður er í kortunum í dag eftir „heiðarlegan“ storm gærdagsins. Er útlit fyrir breytilega átt í dag, yfirleitt á bilinu fimm til tíu metra á sekúndu.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Þar segir að væntanlega muni flestir landshlutar fá skammt af úrkomu áður en dagurinn sé á enda. Hiti um og yfir frostmarki.

„Hitinn mjakast niðurávið og því verður úrkoman ýmist rigning eða snjókoma.

Á morgun verður lítil lægð á ferðinni úti fyrir norðurströndinni. Á norðanverðu landinu má þá búast við vestan kalda eða strekkingi og snjókomu með köflum. Sunnantil er útlit fyrir hægari suðlæga átt og stöku él. Frost 0 til 5 stig.

Um og uppúr miðri viku virðist eiga að vera tiltölulega rólegt veður áfram, það er allavega ekki stormur í kortunum eins og þau líta út núna þegar þetta er skrifað.“

Spákortið fyrir klukkan 15.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Vestlæg átt 5-13 m/s á norðanverðu landinu og snjókoma með köflum. Suðaustan 3-8 á Suður- og Vesturlandi og stöku él. Frost 0 til 6 stig.

Á miðvikudag: Suðlæg átt 3-10 og léttskýjað, en stöku él með vesturströndinni. Bætir heldur í vind um kvöldið og fer að snjóa austast á landinu. Frost 1 til 10 stig, kaldast inn til landsins.

Á fimmtudag: Suðaustan 5-13 og rigning eða snjókoma með köflum, en úrkomulítið norðanlands. Hiti kringum frostmark.

Á föstudag: Hæg suðlæg eða breytileg átt. Skýjað með köflum og sums staðar dálítil él. Frost 0 til 6 stig.

Á laugardag: Hvöss austlæg átt með rigningu eða slyddu, talsverð úrkoma um landið suðaustanvert. Hiti 1 til 6 stig.

Á sunnudag: Breytileg átt, rigning eða slydda með köflum og svipaður hiti áfram.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.