Erlent

Óbólusettur prestur smitaði fjölda barna í fermingarbúðum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hér má sjá prestinn Helge Helgeson ásamt hópi fermingarbarna.
Hér má sjá prestinn Helge Helgeson ásamt hópi fermingarbarna. Facebook / Kjøllefjord og Lebesby menigheter

Óbólusettur prestur í Noregi dreifði ekki bara guðsorðum í fermingarbúðum sem hann vann við heldur smitaði hann fjölda fermingarbarna af kórónuveirunni.

Bærinn Lebesby í Finnmörku nyrst í Noregi hafði komist nokkuð vel í gegnum kórónuveirufaraldurinn og fá smit greinst í bænum þar sem tæplega 1300 manns búa. Þetta breyttist þó í nóvember en þá ruku smittölur upp eftir að hópsmit kom upp í fermingarbúðum.

Einn einstaklingur greindist smitaður í bænum í byrjun nóvember en helgina 19.-21.nóvember voru áðurnefndar fermingarbúðir haldnar í nágrannabænum Mehamn þar sem fermingarbörn frá Lebesby voru meðal þátttakenda. Eftir búðirnar kom upp smit hjá um helmingi barnanna. 

Við búðirnar starfaði presturinn Helge Helgesen en hann reyndist smitaður af kórónuveirunni og hafði borið veiruna áfram. Helgesen fór í sýnatöku fyrir fermingarbúðirnar þar sem smit hafði greinst á skrifstofum ráðhúss bæjarins þar sem hann hefur vinnuaðstöðu.

„Þess vegna fór ég í sýnatöku og sýnið reyndist neikvætt. Ég vildi vera viss áður en búðirnar hæfust,“ sagði Helgesen í samtali við VG í Noregi.

Var óbólusettur

Presturinn Helgesen hafði ekki fengið bólusetningu frá heilbrigðisyfirvöldum í Noregi.Vísir / Vilhelm

Hann ákvað á sínum tíma að þiggja ekki bólusetningu þrátt fyrir hvatningu stjórnvalda.

„Fyrir þá sem eru með veikt ofnæmiskerfi er gott að bólusetja sig og ég hef fullan skilning á því að þeir séu varkárir og vakandi vegna veirunnar. En fyrir mitt leyti hef ég ekki viljað bóluefni og nú er ég líka búinn að fá veiruna,“ bætir Helgesen við.

Fermingarbörnin sem veiktust smituðu fjölskyldumeðlimi og í nóvember greindust um 30 smit í Lebesby. Yfirlæknir heilsugæslunnar í bænum segir að hann hefði viljað vera upplýstur um búðirnar áður en þær voru haldnar.

„Ég vildi að ég hefði verið spurður áður en búðirnar voru haldnar, með tilliti til stöðu smita í bænum. Það var fremur óvarlegt að þessar búðir skyldu fara fram,“ segir yfirlæknirinn Marius Lier.

„Að sama skapi er mikilvægt að benda á að presturinn fór í sýnatöku áður en búðirnar voru haldnar og þetta snýst ekki um að hann hafi brotið reglur.“

Presturinn Helgesen segir að læra þurfi af atvikinu.

„Það er auðvelt að vera vitur eftir á en það er ekki mikið hægt að gera í þessu núna. Við munum eiga samtöl og meta atvikið ásamt foreldrum og fermingarbörnunum sjálfum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×