Enski boltinn

De Gea: Erfitt að horfa upp á þetta - Ekki stjóranum að kenna

Arnar Geir Halldórsson skrifar
De Gea í leikslok.
De Gea í leikslok. vísir/Getty

David De Gea var ekki að skafa af hlutunum í viðtali eftir niðurlægjandi tap Man Utd gegn Watford í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

„Það er ekki mikið hægt að segja. Það var vandræðalegt að sjá Man Utd spila eins og við gerðum í dag. Þetta er ekki ásættanlegt; hvernig við spilum og hvernig við gerum hluti inn á vellinum. Það er auðvelt að kenna stjóranum um en stundum er við leikmennina að sakast. Við verðum að gera miklu betur,“ segir De Gea.

Spænski markvörðurinn varði vítaspyrnu frá Ismaila Sarr í tvígang í fyrri hálfleik en heimamenn hefðu hæglega getað farið með meiri forystu en 2-0 inn í leikhléið.

„Fyrri hálfleikur var vandræðalegur. Við hefðum getað fengið á okkur fjögur mörk á 45 mínútum. Það var erfitt að horfa upp á þetta. Martröð á eftir martröð. Við getum ekki sætt okkur við þetta.“ 

„Við erum að reyna að gera okkar besta og berjast fyrir liðið en það er klárlega eitthvað að. Það sjá það allir í leikjunum. Spilamennskan er í mjög lágum gæðaflokki. Við þurfum að biðja stuðningsmennina afsökunar, enn og aftur,“ sagði De Gea.

De Gea hefur leikið 456 leiki fyrir Man Utd og augljóst að hann er ekki ánægður með á hvaða stað liðið er í dag.

„Þetta er ekki Manchester United eða spilamennskan sem við viljum standa fyrir. Þetta hefur verið mjög vont í langan tíma. Félag eins og Man Utd verður að vera að keppa um titla og berjast í fremstu röð. Ef ég er alveg heiðarlegur þá erum við langt frá því.“

„Við verðum að halda áfram og standa saman. Við erum alltaf að segja sömu hlutina en þetta er sannleikurinn. Við verðum að líta á okkur sjálfa og sjá hvað við getum bætt,“ segir De Gea.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.