Lífið

Bjóða útiketti velkomna á Blönduósi: „Ég botna ekkert í félögum mínum á Akureyri“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Þetta er köttur. Hann býr í Reykjavík, en ekki á Blönduósi.
Þetta er köttur. Hann býr í Reykjavík, en ekki á Blönduósi. vísir/vilhelm

„Sum sveitarfélög halda kattaskrá. Ekki öll birta hana á netinu. En það gerir Blönduós og nú langar mig að heimsækja allar kisurnar á Blönduósi. Myndi byrja hjá Snöru Snar.“

Þessu tístir Ásþór Ásþórsson sem fór að grennslast fyrir um reglur um kattahald eftir að fréttir bárust frá Akureyri þess efnis að lausaganga katta verði bönnuð á svæðinu árið 2025.

Einungis sautján kettir eru skráðir með búsetu á Blönduósi. Þeirra á meðal eru Mosi Gosi, Gúllas, Snara Snar og Leifur.

Í samtali við fréttastofu segir Ásþór að hans uppáhalds köttur á listanum sé líklegast Robinson Knúsó en nafnið finnst honum áberandi gott.

Sjálfur er hann ekki hrifinn af ákvörðun Akureyrabæjar.

Valdimar O. Hermannsson er sveitastjóri Blönduósbæjar.blönduósbær

„Mér finnst að kettir ættu að ganga lausir ef þeir eru vanir því.“

Fréttamaður hafði samband við Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóra Blönduósbæjar til að ganga úr skugga um að kattaskráin væri raunveruleg.

„Já við höldum skrá yfir ketti og hunda. Það eru 17 kettir á svæðinu en 51 hundur.“

Valdimar segir að bærinn hvetji til skráningar katta en reglur eru til um kattahald á svæðinu.

Hann segir að það sé ekki á dagskrá að fara að fordæmi Akureyringa og botnar raunverulega ekkert í ákvörðuninni.

„Við erum ekki að fara að banna lausagöngu katta. Ég botna ekkert í félögum mínum á Akureyri,“ segir Valdimar.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.