Erlent

Hægriöfgamaður grunaður um að skipuleggja voðaverk í Svíþjóð

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Falköping í Svíþjóð þar sem maðurinn er grunaður um að hafa lagt á ráðin um einhvers konar voðaverk.
Frá Falköping í Svíþjóð þar sem maðurinn er grunaður um að hafa lagt á ráðin um einhvers konar voðaverk. Vísir/Getty

Sænska lögreglan handtók í gær karlmann á þrítugsaldri sem er grunaður að hafa ætlað að valda eyðileggingu sem ógnaði almenningi. Maðurinn er talinn hafa tengsl við Norrænu mótstöðuhreyfinguna, hreyfingu norrænna nýnasista sem teygir anga sína meðal annars til Íslands.

Maðurinn er 25 ára gamall frá Vestri-Gautalandi. Hann var handtekinn í gær og húsleit gerð á heimili hans. Sænska ríkisútvarpið SVT segir að lögregla hafi lagt hald á fjölgmarga hluti en ekki kemur fram hvaða hlutir það voru.

Grunur leikur á um að maðurinn hafi undirbúið verknað sem fellur undir skilgreiningu sænskra hegningarlaga um „almenna eyðileggingu“ í bænum Falköping í meira en ár. Sænska öryggislögreglan Säpo hafi unnið með leyniþjónustunni að rannsókn á ofbeldisfullum hægriöfgamönnum.

Lögreglan vildi ekki svara því hvort að hún teldi sig hafa afstýrt einhvers konar árás með því að taka manninn fastan. Þá vildi hún ekki gefa skýr svör um hvort von gæti verið á frekari handtökum eða aðgerðum vegna rannsóknarinnar.

Sá grunaði hefur áður hlotið refsidóm fyrir líkamsárás en hann var bundinn skilorði. Þá hafði umsókn hans um skotvopnaleyfi vegna veiða verið hafnað vegna tengsla hans við Norrænu mótstöðuhreyfinguna.

Aftonbladet segir að maðurinn hafi verið dæmdur fyrir líkamsárás þegar hann sló konu á mótmælum öfgasamtakanna í miðborg Gautaborgar í febrúar árið 2017. Konan, sem mótmælti nýnasistunum, er sögð hafa hrækt í andlitið á honum en hann brugðist við með því að kýla hana í andlitið.

Fylgjendur norrænu nýnasistasamtakanna hafa maðurinn er sagður tengjast hafa haft sig frammi á Íslandi á undanförnum árum, þar á meðal dreift áróðri í Háskóla Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×