Bíó og sjónvarp

Leyni­löggan sýnd víða í Evrópu og Asíu

Árni Sæberg skrifar
Leynilöggan verður sýnd víða um heim.
Leynilöggan verður sýnd víða um heim. Elli Cassata

Framleiðslu- og dreifingarfyrirtækið Alief hefur selt sýningarrétt að Leynilöggunni í fjölmörgum löndum í Evrópu og Asíu. Leynilöggan hefur gengið fyrir fullum kvikmyndahúsum hér á landi alla vikuna og hefur hlotið mikið lof. 

Leynilöggan vakti mikla athygli erlendis þegar hún var frumsýnd á Lucarno kvikmyndahátíðinni í ágúst síðastliðnum. Viðtökur hér á landi hafa einnig verið góðar en myndin sló fimmtán ára gamalt miðasölumet á frumsýningarhelginni.

 Í fréttatilkynningu frá aðstandendum myndarinnar segir að Brett Walker, forstjóri Alief, sé spenntur fyrir myndinni: „Leynilöggan er svo sjaldgæf mynd og alls ekki algengt að finna svona drepfyndna mynd. Þetta er mynd fyrir alla sem elska allt ´90s og þessar sígildu spennumyndir með þennan ´Die Hard´anda. Stórkostleg frumraun,“ segir hann.

„Leynilöggan er æðislega öðruvísi spennumynd með stórt hjarta sem höfðar til breiðs markhóps sem vill fara í bíó til að skemmta sér,“ segir Miguel Govea, framkvæmdastjóri framleiðslu-og dreifingar hjá Alief.

Leynilöggan verður frumsýningarmyndin á Norrænum dögum á Kvikmyndahátíðinni í Lübeck, Þýskalandi 3. nóvember næstkomandi en MFA Plus Film dreifingarfyrirtækið hefur tryggt sér réttinn á myndinni á þýskumælandi svæðum og stefnir að frumsýningu á næsta ári.


Tengdar fréttir

Leynilöggan halaði inn milljónir um frumsýningarhelgina

Kvikmyndin Leynilöggan halaði inn 15,9 milljónum króna um liðna helgi sem gerir kvikmyndina að tekjuhæstu frumsýningu á íslenskri mynd frá upphafi. Mýrin í leikstjórn Baltasar Kormáks átti metið en miðar á myndina seldust fyrir 15,8 milljónir króna í október 2006.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×