Enski boltinn

Arteta segir meðferðina á Steve Bruce fæla menn frá starfinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Mikel Arteta tekur í höndina Steve Bruce eftir leik liða þeirra á síðasta tímabili.
 Mikel Arteta tekur í höndina Steve Bruce eftir leik liða þeirra á síðasta tímabili. Getty/David Price

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal finnur til með kollega sínum Steve Bruce sem var rekinn sem knattspyrnustjóri Newcastle United á miðvikudaginn.

Bruce sagði frá því í viðtali við Telegraph að árin tvö hjá Newcastle hafi verið mjög erfið fyrir hann og fjölskyldu hans.

Bruce fékk mikla gagnrýni og fjölskyldumeðlimir sluppu ekki við pressuna sem var á þessum fyrrum fyrirliða Manchester United sem er einn reyndasti knattspyrnustjórinn enska boltanum. Bruce fékk bara einn leik og þrettán daga í starfi eftir að nýir eigendur eignuðust Newcastle. Hann segist líklega hafa stýrt sínum síðasta leik á ferlinum.

Arteta segir að núverandi og líklegir knattspyrnustjórar framtíðarinnar muni hugsa sig tvisvar um að gerast stjórar liða í framtíðinni.

„Já, margir hugsa þannig. Ég hef heyrt mikið um það og ég á marga vini sem hafa verið að taka þjálfaranámskeið en efast um hvort þeir treysta sér að setjast í heita sætið. Þeir telja kannski betra að verða bara aðstoðarmaður eða eitthvað viðlíka,“ sagði Mikel Arteta.

„Fyrir mig sjálfan þá má það ekki vera hindrun að vera hræddur við þá meðferð sem þú munt fá. Ég tel að ánægjan sé það mikil á móti að það ætti ekki að stoppa þig,“ sagði Arteta.

„Það er samt mikilvægt að við tökum til í þessu umhverfi og komum hlutunum í rétt ferli. Ef við gerum það ekki þá verður þetta ekkert betra í framtíðinni. Þetta ástand verður bara verra ef við tökum ekki á þessu,“ sagði Arteta.

Mikel Arteta er 39 ára gamall og meira en tuttugu árum yngri en Steve Bruce. Arteta hefur þurft að þola mikla gagnrýni sem stjóri Arsenal en gengi liðsins var mjög slakt til að byrja með á þessu tímabili.

Arsenal tapaði þremur fyrstu leikjum sínum en hefur síðan spilað fimm leiki í röð án taps. Tveir síðustu leikirnir hafa endað með jafntefli en þeir voru á móti Brighton og Crystal Palace.

Arsenal liðið mætir Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í kvöld og reynir að komast upp úr tólfa sætinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.