Sport

Sögulegur sigur íslensku stelpnanna í Danmörku

Sindri Sverrisson skrifar
Íslensku stelpurnar glaðbeittar eftir að hafa unnið gullverðlaunin, með þjálfarann Kaposi Tamás í fanginu.
Íslensku stelpurnar glaðbeittar eftir að hafa unnið gullverðlaunin, með þjálfarann Kaposi Tamás í fanginu. Facebook/@tamas.d.kaposi

Íslenska stúlknalandsliðið í blaki, skipað leikmönnum 17 ára og yngri, vann sögulegan sigur Norður-Evrópumótinu sem fram fór í Ikast í Danmörku. Liðið vann fyrstu gullverðlaun sem Ísland hefur unnið á slíku móti í flokki U17- eða U19-landsliða.

Á mótinu voru lið frá Danmörku, Noregi, Færeyjum og Íslandi. Íslensku stelpurnar unnu Færeyjar 3-1 og Noreg 3-0 en töpuðu 3-0 fyrir Danmörku í riðlakeppninni, og enduðu þar í 2. sæti.

Efstu tvö liðin, Ísland og Danmörk, mættust svo í úrslitaleik og þar náðu íslensku stelpurnar fram hefndum með öruggum 3-0 sigri. Þær unnu fyrstu hrinuna 25-20, þá næstu 25-14 og loks 25-19.

Lið Íslands á mótinu í Danmörku.BLÍ

Fjórar af íslensku stelpunum voru valdar í draumalið mótsins. Það voru þær Lelja Sara Hadziredzepovic díó, Heba Sól Stefánsdóttir miðja, Sóldís Björt Leifsdóttir kantur og Agnes Björk Ágústsdóttir frelsingi.

Sóldís Björt var auk þess valin verðmætasti leikmaður mótsins.

Drengirnir neðstir

Drengjalandslið Íslands endaði í fjórða og neðsta sæti á mótinu. Liðið lék um 3. sæti við Færeyjar en tapaði leiknum 3-0, þar sem hrinurnar fóru 25-18, 25-22 og 25-17.

Í næstu viku fara U19-landslið Íslands til Finnlands og keppa á Norður-Evrópumótinu þar. Löndin sem tilheyra norður-evrópska blaksambandinu eru Danmörk, Grænland, Færeyjar, Ísland, Finnland, Svíþjóð, Noregur og England.

Í byrjun september vann U19-landslið kvenna alþjóðlegt mót á Laugarvatni þar sem Færeyjar, Gíbraltar og Malta tóku þátt ásamt Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.