Lífið

IKEA-geitin komin á sinn stað

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Ikea geitin
Ikea geitin Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

IKEA-geitin er komin á sinn stað í Kauptúninu og ljós hafa verið tendruð. Geitin hefur fengið að standa óáreitt síðustu ár en nokkrum sinnum hefur verið kveikt í geitinni. Síðast var það gert árið 2016.

Margt hefur gengið á í lífi geitarinnar en kveikt hefur verið í henni að minnsta kosti þrisvar. Geitin hefur einnig farið illa út úr veðrum og vindum en hún fauk um koll í óveðri árið 2011.

Árið 2015 brugðu stjórnendur IKEA á það ráð að hafa auka öryggisgæslu og geitin var vöktuð allan sólarhringinn. Það dugði þó ekki til en þá kveiknaði í geitinni út frá útiseríu. 

Geitin staðið óáreitt síðustu ár

Árið 2016 var síðast kveikt í geitinni og hún hefur því fengið að standa svo gott sem óáreitt síðustu ár.  IKEA höfðaði dómsmál í kjölfar brunans 2016 og dæmdi héraðsdómur þrjá aðila til að greiða skaðabætur upp á 150 þúsund krónur hvert.

Tæplega fimm þúsund manns lýstu yfir komu sinni í Facebook-viðburði árið 2019 en viðburðurinn bar yfirskriftina: „Kveikjum í geitinni, þau geta ekki stöðvað okkur öll.“ 

Upplýsingafulltrúi IKEA sagði þá í samtali við fréttastofu að um augljóst grín væri að ræða. Nokkrir mættu á viðburðinn en ekkert varð af brunanum.


Tengdar fréttir

Neita að hafa kveikt í Ikea-geitinni

Tvær konur og einn karlmaður hafa verið ákærð fyrir stórfelld eignaspjöll með því að hafa kveikt í Ikea-geitinni svokölluðu í nóvember síðastliðnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×