Enski boltinn

Fannst Mourinho gera stórkostlega hluti hjá Tottenham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tony Adams fannst José Mourinho vera á réttri leið með Tottenham. Forráðamenn liðsins voru því ósammála og ráku hann í vor, nokkrum dögum fyrir úrslitaleik deildabikarsins.
Tony Adams fannst José Mourinho vera á réttri leið með Tottenham. Forráðamenn liðsins voru því ósammála og ráku hann í vor, nokkrum dögum fyrir úrslitaleik deildabikarsins. getty/Clive Brunskill

Tony Adams, fyrrverandi fyrirliði Arsenal, segir að Tottenham hafi gert stór mistök þegar José Mourinho var látinn fara frá félaginu. Hann hafi gert stórkostlega hluti þar.

Mourinho var rekinn frá Tottenham í apríl eftir sautján mánuði í starfi. Ryan Mason stýrði Spurs út síðasta tímabil og Nuno Espirito Santo tók svo við liðinu í sumar.

Ekki voru allir ánægðir með stjóratíð Mourinhos hjá Tottenham en hann fékk stuðning úr óvæntri átt í gær, frá sjálfum Tony Adams sem fór yfir leik Tottenham og Arsenal á Sky Sports. Skytturnar unnu öruggan sigur, 3-1.

„Mér fannst Mourinho reyndar gera stórkostlega hluti hjá Spurs. En ég hugsaði aldrei um hann sem Tottenham-stjóra. Hann var ekki nógu sóknarsinnaður fyrir þá en hann var að hnoða þessu saman,“ sagði Adams.

„Þeir voru með gott leikskipulag sem þeir eru ekki með núna svo ég vil vera í búningsklefanum hjá Arsenal.“

Tottenham byrjaði tímabilið af krafti og vann fyrstu þrjá leiki sína í ensku úrvalsdeildinni. Síðustu þrír leikir hafa hins vegar tapast með markatölunni 1-9 og farið er að hitna undir Nuno.

Mourinho tók við Roma í sumar. Liðið tapaði fyrir Lazio, 3-2, í Rómarslag í gær. Roma er í 4. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.