Lífið

Sósa­listar eru Kviss-meistarar flokkanna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
María Lilja Þrastardóttir og Ester Bíbí Ásgeirsdóttir, frambjóðendur Sósíalista, færðu sínum flokki sigurinn í Kviss.
María Lilja Þrastardóttir og Ester Bíbí Ásgeirsdóttir, frambjóðendur Sósíalista, færðu sínum flokki sigurinn í Kviss.

Stjórnmálaflokkarnir sem bjóða fram til Alþingis tókust á í svokölluðum „Fimmföldum,“ sem er liður í spurningaþættinum Kviss á Stöð 2, nú í kvöld. Vinstri græn voru þar atkvæðamest og báru sigur úr býtum.

Liðurinn er nokkuð einfaldur, en þar fá keppendur það verkefni að nefna fimm af einhverju, til að mynda ákveðnum bæjarfélögum eða löndum. Til að mynda var það verkefni lagt fyrir Sósíalista að nefna þær matsölu- og kaffikeðjur sem reka flest útibú á heimsvísu, á þrjátíu sekúndum. Fulltrúum flokksins fórst það vel úr hendi og tókst að gera það á aðeins 8,39 sekúndum.

Sósíalistar kepptu við fulltrúa Framsóknar, sem tókst að nefna fjögur af fimm verðmætustu vörumerkjum heims.

VG, sem einnig tókst að leysa sína þraut á tilsettum tíma, att kappi við Frjálslynda lýðræðisflokkinn, sem tókst að nefna fjögur lönd sem byrja á bókstafnum N. VG tókst að nefna fimm sjálfstæð ríki sem byrja á stafnum L, en gerði það á ögn lengri tíma en Sósíalistar, eða 8,82 sekúndum.

Auk VG og Sósíalista tókst fulltrúum Viðreisnar að klára sína þraut, og nefndi fimm vinsælustu karlmannsnöfnin sem byrja á Þ, á undir hálfri mínútu. Viðreisn var þó lengur að leysa sína þraut en VG, og því stendur flokkur forsætisráðherrans uppi sem sigurvegari. Á móti Viðreisn var síðan Miðflokkurinn, sem tókst að nefna tvö af fimm vinsælustu kvennanöfnunum sem byrja á V.

Þá tókst Flokki fólksins að nefna tvö sveitarfélög sem byrja á S, en Sjálfstæðisflokkurinn hafði betur í þeirri viðureign, þar sem fulltrúum hans tókst að nefna þrjú sveitarfélög sem byrja á G.

Þar sem fjöldi keppenda var oddatala kom það síðan í hlut Samfylkingarinnar að keppa við sjálfa sig, og tókst fulltrúum flokksins að nefna þrjá af síðustu tíu fulltrúum Íslands í Eurovision.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.