Fótbolti

Fögnuðu sæti í riðla­keppni Meistara­deildar Evrópu með bragðaref

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sæti í Meistaradeild Evrópu fagnað.
Sæti í Meistaradeild Evrópu fagnað. Vísir/Hulda Margrét

Það er fátt íslenskara en að fá sér bragðaref, það er ís með allskyns nammi, þegar fagna skal stórum áfanga. 

Það gerðu systurnar Ásta Eir og Kristín Dís Árnadætur eftir að Breiðablik tryggði sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Er þetta í fyrsta sinn sem leikið verður í riðlum í keppninni.

Breiðablik mætti Osijek frá Króatíu í síðari leik liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Fyrri leik liðanna lauk með 1-1 jafntefli en í gær var ljóst frá fyrstu mínútu hvort liðið væri að fara áfram.

Breiðablik byrjaði leikinn stórkostlega, skoruðu tvö mörk á fyrstu tíu mínútunum og fóru langleiðina með að tryggja sér sæti í riðlakeppninni. Mark snemma í síðari hálfleik kom Blikum í 3-0 og reyndust það lokatölur.

Ótrúleg úrslit og ótrúlegt afrek sem ber að fagna á íslenskasta hátt í heimi. Eftir að hafa fagnað vel og innilega með liðsfélögum og stuðningsfólki sínu komu systurnar Ásta Eir og Kristín Dís við í ísbúðinni Huppu og fengu sér íslenskasta rétt allra tíma, bragðaref.

Hvað þær fengu sér í bragðarefinn fylgdi þó ekki með sögunni.

Blikastúlkur verða í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla á mánudaginn kemur. Eru þær þar með ekki minni liðum en Lyon, Wolfsburg og Arsenal.

Ljóst er að ekkert af þessum liðum er á leið á Kópavogs- eða Laugardalsvöll í vetur en Blikar munu spila við eitthvað af eftirfarandi liðum á næstu mánuðum: Barcelona, París Saint-Germain, Bayern München, Chelsea, Real Madríd, Juventus, Häcken, Benfica og HB Köge.

Hver veit nema það verði fagnað aftur í bragðaref eftir einhverja af þessum leikjum.


Tengdar fréttir

Vilhjálmur: Í seinni hálfleik var þetta aldrei spurning

Vilhjálmur Kári Haraldsson, þjálfari Breiðabliks, var að vonum ánægður eftir að liðið tryggði sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu með 3-0 sigri á Osijek á Kópavogsvelli í kvöld.

Breiðablik í styrkleikaflokki með Lyon og Wolfsburg

Kvennalið Breiðabliks í fótbolta tryggði sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu með öruggum 3-0 sigri á Króatíumeisturum Osijek á Kópavogsvelli í kvöld. Eftir úrslit kvöldsins er ljóst að Blikakonur verða í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðlakeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×