Róbert Ísak, sem hefur bæði unnið gull á heimsmeistaramóti og silfur á Evrópumóti ræddi við Víði Sigurðsson hjá Morgunblaðinu um mótið og segir markmið sitt nokkuð einfalt, hann ætli sér að bæta Íslandsmetið og komast áfram.
„Myndi segja að ég væri 110 prósent tilbúinn. Ég byrja á minni aðalgrein, 100 metra flugsundinu. Þori ekki að svara til um hverjir möguleikarnir eru á að ná ákveðnu sæti eða komast á verðlaunapall því ég veit aldrei hvað hinir keppendurnir gera.“
„Langar að bæta tímann minn og setja nýtt Íslandsmet, helst að stórbæta það. Markmiðið er alltaf að vera betri í dag en í gær,“ sagði Róbert Ísak í viðtalinu sem finna má í heild sinni á íþróttavef mbl.is.
Róbert Ísak er Íslandsmethafi í flugsundi í S14 flokki en þarf að bæta það um tæpa sekúndu til að komast áfram í úrslit. Metið setti hann í vor þegar hann komst á verðlaunapall á EM í sundi. Einnig setti hann þrjú Íslandsmet á mótinu sem fram fór á eyjunni Madeira í Portúgal.
Nú er bara að vona að Róbert Ísak haldi uppteknum hætti og tryggi sig þar með áfram með enn einu Íslandsmetinu.