Erlent

Shell greiðir milljarða vegna olíuleka í Nígeríu fyrir hálfri öld

Kjartan Kjartansson skrifar
Drengur stendur með fiskinet við olíumengaðan læk í Ogoniland. Málið sem nú hefur verið útkljáð er hálfrar aldar gamalt en olíumengun er enn meiriháttar vandamál á óseyrum Nígerfljóts. Shell var einnig dæmt til skaðabóta vegna leka á árunum 2004-2007 nýlega.
Drengur stendur með fiskinet við olíumengaðan læk í Ogoniland. Málið sem nú hefur verið útkljáð er hálfrar aldar gamalt en olíumengun er enn meiriháttar vandamál á óseyrum Nígerfljóts. Shell var einnig dæmt til skaðabóta vegna leka á árunum 2004-2007 nýlega. Vísir/EPA

Olíurisinn Shell hefur loks fallist á að greiða nígerískum þjóðflokki meira en fjórtán milljarða króna í bætur vegna meiriháttar olíuleka í Biafra-stríðinu á sjöunda áratug síðustu aldar. Þar með lýkur áralöngum málaferlum vegna lekans.

Nígerískur dómstóll dæmdi Shell til að greiða rúma 41 milljón dollara, jafnvirði rúmra fimm milljarða íslenskra króna, árið 2010 en málið var upphaflega höfðað árið 1991. Þeim dómi vildi Shell ekki una og áfrýjaði ítrekað án árangurs. Hæstiréttur landsins taldi að með vöxtum skuldaði Shell meira en tífalda þá upphæð.

Enn reyndi Shell að komast hjá ábyrgð á lekanum og skaut málinu til alþjóðlegs gerðardóms fyrr á þessu ári með þeim rökum að fyrirtækið hafi aldrei fengið tækifæri til að verjast ásökununum efnislega. Fyrirtækið hefur alla tíð haldið því fram að aðrir hafi valdið skemmdum sem ullu lekanum í Biafra-stríðinu sem geisaði frá 1967 til 1970.

Nú hefur Shell lagt árar í bát og fallist á að greiða Ejama-Ebubu-þjóðflokknum í Ogoniland 111 milljónir dollara, jafnvirði rúmra fjórtán milljarða íslenskra króna, til að bæta honum tjónið.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að olíulekar valdi enn mikilli mengun á óseyrum Nígerfljóts. Hollensku áfrýjunardómstóll úrskurðaði Shell ábyrgt fyrir tjóni af völdum leka þar á árunum 2004 til 2007 fyrr á þessu ári. Var fyrirtækið jafnframt dæmt til að greiða nígerískum bændum bætur og skipað að koma fyrir búnaði til að fyrirbyggja frekari leka. Shell hélt því fram að skemmdarverk hafi verið orsök lekanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×