Menning

Rétt nær að standa við gamalt lof­orð með skáld­­sögu fyrir sjö­tugt

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Gróa með fyrstu skáldsöguna. Hún er ansi sátt með útkomuna og lofar hér öðruvísi skáldsögu.
Gróa með fyrstu skáldsöguna. Hún er ansi sátt með útkomuna og lofar hér öðruvísi skáldsögu. aðsend

Að fara á eftir­laun getur reynst þeim erfitt sem eru full­frískir og orku­miklir og vilja ekki sitja að­gerða­lausir heilu og hálfu dagana. Gróa Finns­dóttir er ein þeirra en hún deyr ekki ráða­laus og mun nú eftir helgi efna gamalt lof­orð með út­gáfu sinnar fyrstu skáld­sögu rétt fyrir sjö­tíu ára af­mælisdaginn. Þannig leggur hún í leiðinni grunn að nýjum starfs­ferli sínum sem rit­höfundur á eftir­launa­aldrinum.

„Ég var búin að á­kveða með sjálfri mér að ég ætlaði að vera búin að gefa út bók þegar ég yrði sjö­tug. Og ég rétt hafði það!“ segir Gróa, sem verður sjö­tug þann 12. ágúst næst­komandi, í sam­tali við Vísi.

Hún lætur af störfum sínum sem bóka­safns- og ­upp­lýsinga­fræðingur hjá Þjóð­minja­safninu í lok ágúst­mánaðar eftir 33 ár í starfi. Og þegar fer að síga svo á loka­kafla starfs­ferilsins fer maður að hafa meiri tíma til að sinna öðrum á­huga­málum – skrifum í til­viki Gróu.

Fyrsta skáldsaga hennar, Hylurinn, kemur út eftir helgi hjá forlaginu Sæmundi og þegar Gróa er spurð út í það er hún ekki frá því að hún hafi hrein­lega gengið með drauminn um að gefa út skáld­sögu, kannski ó­með­vitað, allt frá því hún var ung­lingur.

Hér er kápa bókarinnar. sæmundur

„Og hún var nú búin að velkjast lengi um í hausnum á mér, þessi bók,“ segir Gróa. Hún hafi verið að dunda sér við að skrifa hana í um tíu ár.

„Ég er búin að vera að skrifa þetta svona öðru hvoru og ekkert vitað hvað yrði úr þessu, kannski yrði þetta saga. Svo hef ég verið að sýna vinum mínum og fjöl­skyldu þetta og þau hvatt mig ein­dregið til að gefa bara út. Svo ég kýldi á það.“

Bókin segir sögur hins skyggna Snorra annars vegar og bónda­dótturinnar Sól­rúnar hins vegar í sitt­hvoru lagi en sögur þeirra fléttast svo saman á endanum. Snorri er þó aðal­númerið hér.

Sögu­sviðið er Borgar­nes, þar sem Gróa bjó lengi. Henni fannst hún skulda Borg­nesingum eins og eina góða skáld­sögu. Þær hafa ekki verið margar gefnar út sem gerast í bænum.

Hvernig saga er þetta?

„Ég get alla­vega lofað því að þessi bók er öðru­vísi. Hún er ekki svona hrein glæpa­saga og þetta er ekki heldur svona pró­blema­saga… en hún drepur á ýmsu,“ segir Gróa.

Söguna þyrfti þó ef­laust að flokka sem spennu­sögu: „Já, það eru framdir glæpir. Ég vil náttúru­lega ekki vera að segja of mikið… en svo er þessi spurning líka alltaf í loftinu: Hve­nær fremur maður glæp og hve­nær fremur maður ekki glæp? Hve­nær drepur maður mann og hve­nær drepur maður ekki mann?“ segir hún dular­full í bragði.

Mamma var skyggn

Yfir­náttúran spilar sinn þátt í verkinu enda aðal­per­sónan skyggn. „Ég er svona eins og flestir Ís­lendingar held ég, ekki kirkju­rækin en hef nú ein­hverja trú,“ segir Gróa.

„Ég er náttúru­lega alls ekki skyggn eins og Snorri en hef að­eins orðið vör við ýmis­legt í kringum mig. Við skulum segja að ég hafi séð að­eins meira en normalt geti talist. Mamma mín var hins vegar skyggn og sá fyrir um hluti. Hún sagði aldrei nokkrum manni frá þessu en gaf kannski góð ráð stundum. Kannski hún mamma spili dá­lítið inni í hvernig ég læt hann Snorra vera í bókinni,“ heldur hún á­fram.

Gróa kveður bókasafn Þjóðminjasafnsins eftir 33 ár í starfi sem upplýsinga- og bókasafnsfræðingur.Íris Rut Bergmann

Laus við próblematík á þessum aldri

Hún Gróa er bók­elsk með meiru og hefur í rúma þrjá ára­tugi starfað í kringum bækur og þegar hún er ekki í vinnunni situr hún iðu­lega við lestur eða skrif.

En þó hún verði sjö­tug í ágúst er kraftur hennar hvergi nær á þrotum. Hún býst því við að rit­höfundar­starfið taki við á fullu þegar hún hættir á bóka­safninu og er þegar byrjuð á næstu sögu.

„Það er svona þegar maður er full­frískur sjö­tugur, alveg fullur af orku eins og ung­lingur… þá verður maður að hafa eitt­hvað að gera,“ segir hún glöð í bragði. „Þá er þetta til­valið. Að gerast rit­höfundur nú þegar maður er orðinn þroskaður og gáfaður og laus við alls konar pró­blematík. Ég fer bara að verða frjáls manneskja og hlakka bara til.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.