Sport

Bermúda eignaðist sinn fyrsta Ólympíu­meistara: „Medalían er stærri en ég“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Flora Duffy fagnar sigri í nótt eftir að hafa tryggt sér Ólympíugullið í þríþraut.
Flora Duffy fagnar sigri í nótt eftir að hafa tryggt sér Ólympíugullið í þríþraut. AP/David Goldman

Flora Duffy frá Bermúdaeyjum skrifaði nýjan kafla í sögu þjóðar sinnar í nótt þegar hún vann þríþraut kvenna á Ólympíuleikunum i Tókýó.

Hinn 33 ára gamla Duffy er sú fyrsta frá Bermúda til að vinna Ólympíugull en þetta 64 þúsund manna eyja á Atlantshafi, út fyrir austurströnd Bandaríkjanna. Bermúda er nú fámennasta þjóðin til að eignast Ólympíumeistara.

Duffy kláraði þríþrautina á einum klukkutíma, 55 mínútum og 36 sekúndum og var meira en mínútu á undan hinni bresku Georgia Taylor-Brown sem fékk silfur. Bronsið fór síðan til Katie Zaferes frá Bandaríkjunum.

Þetta var fyrsta gull Bermúdaeyja en ekki fyrstu Ólympíuverðlaunin. Clarence Hill vann brons í hnefaleikum á leikunum árið 1976.

„Ég held að medalían sé stærri en ég. Hún mun hvetja unga fólkið á eyjunni til dáða og sýn þeim og öllum heima á Bermúda að það er hægt að keppa á stærsta sviðinu þó að þú komir frá lítilli eyju,“ sagði Flora Duffy.

Duffy var að keppa á sínum fjórðu Ólympíuleikum og hafði best náð áttunda sæti á leikunum í Ríó árið 2016. Hún hefur orðið heimsmeistari og verið í efsta sæti heimslistans.

„Ég reyndi að halda ró minni og leyfði mér ekki að hugsa um að gullið væri möguleiki fyrr en það var kílómetri eftir af hlaupinu. Ég sá eiginmanninn og þjálfann minn á vegkantinum og brosti til hans. Eftir það leyfði ég öllum tilfinningunum að flæða,“ sagði Duffy.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.