Sport

Að­eins helmingur kepp­enda á heims­leikunum fær að keppa á loka­deginum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Æfingafélagarnir Chandler Smith og KatrínTanja Davíðsdóttir ætla sér bæði stóra hluti á heimsleikunum í ár.
Æfingafélagarnir Chandler Smith og KatrínTanja Davíðsdóttir ætla sér bæði stóra hluti á heimsleikunum í ár. Instagram/@katrintanja

Nú hefur verið tilkynnt um það hvernig niðurskurðinum verður háttað á heimsleikunum í CrossFit sem hefjast í Madison á miðvikudaginn.

Dave Castro, hæstráðandi hjá CrossFit, tilkynnti um það á samfélagssíðum samtakanna hvernig verður skorið niður á heimsleikunum að þessu sinni en fjörutíu bestu karlar og fjörutíu bestu konur heimsins keppa um heimsmeistaratitilinn í ár.

Keppnin hefst á miðvikudaginn og stendur fram á sunnudaginn. Keppnisdagarnir eru samt bara fjórir því fimmtudagurinn er hvíldardagur.

Allir fjörutíu keppendurnir fá að keppa í öllum greinunum á miðvikudaginn og föstudaginn en fyrsti niðurskurðurinn verður eftir lokagrein á föstudaginn. Þá verður fækkað um tíu keppendur.

Hópurinn verður ekki lengi í þrjátíu því skorið verður aftur niður tíu keppendur eftir fyrstu grein á laugardaginn.

Með því verður öllum niðurskurði hætt og tuttugu karlar og tuttugu konur klára því allar greinarnar sem eftir eru.

Hér fyrir ofan má sjá umræddan Dave Castro fara yfir fyrirkomulag niðurskurðarins.

Snorri Barón Jónsson, umboðsmaður CrossFit fólks eins og Björgvins Karls Guðmundssonar og Söru Sigmundsdóttur, á nokkra fulltrúa á heimsleikunum og hann er ekki ánægður með niðurskurðinn.

Snorri Barón er ekki síst óánægður með það hversu seint þessi yfirlýsing kom frá CrossFit samtökunum. Íþróttafólkið þarf að kosta miklu til svo að það komist til Madison og nú rétt fyrir keppni kemur í ljós að aðeins tuttugu þeirra frá að klára keppnina. Íþróttafólkið stendur eitt að öllum kostnaði.

Hér fyrir neðan má sjá þessa athyglisverðu færslu frá Snorra Barón og það er mikið til í henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×