Umfjöllun og viðtöl: Þór/KA - Valur 1-3 | Valskonur halda toppsætinu

Ester Ósk Árnadóttir skrifar
Valur Breiðablik Olis deild karla vor 2021 KSI
Valur Breiðablik Olis deild karla vor 2021 KSI Foto: Elín Björg

Valur vann góðan 1-3 útisigur á Þór/KA á Saltpay vellinum á Akureyri í dag. Leikurinn var liður í 12. umferð Pepsí Max deildar kvenna.

Leikurinn var í góðum jafnvægi fyrstu fimmtán mínútur hálfleiksins, bæði lið héldu vel í boltann og reyndu að skapa sér stöður. Valur náði þó alltaf betri og betri tökum eftir því sem leið á leikinn. Á 15. mínútu leiksins gerði Colleen Kennendy í liði Þór/KA sig seka um mistök en hún átti þá lélega sendingu niður í varnarlínuna þar sem Elín Metta var mætt. Arna Sif þó á réttum stað og náði að koma boltanum aftur fyrir áður en Elín skaut að marki. Valur fékk þá sína aðra hornspyrnu í leiknum. Upp úr þeirri spyrnu fór boltinn á kollinn á áðurnefndri Örnu Sif sem ætlaði að skalla boltann í burtu en vildi ekki betur til en að hún skallaði í stöngina og inn í markið. Staðan því orðin 0-1 fyrir gestunum.

Valskonur héldu áfram að sækja eftir markið og fór leikurinn að mestu fram á vallarhelmingi heimakvenna. Það kom því á óvart þegar heimakonur skoruðu annað mark leiksins en aftur gerði leikmaður sig sek um slæm mistök, nú leikmaður Vals. Mary Alice Vignola ætlaði þá að taka aukaspyrnu fyrir Val og átti spyrnan líklega að fara yfir á hægri vænginn en vildi ekki betur til en að spyrnan endaði hjá Margréti Árnadóttir sem átti þá nokkuð greiða leið að marki, skotið fyrir utan teig og upp í þaknetið. Staðan því óvænt orðinn 1-1 þegar um 10. mínútur lifðu hálfleiksins.

Á 43. mínútu var brotið á Elín Mettu rétt fyrir utan teig Þór/KA. Dóra María tók aukaspyrnuna sem var á frábærum stað. Hún gerði sér lítið fyrir og skoraði gott mark í fjærhornið. Staðan því í hálfleik 1-2 fyrir gestina.

Það tók ekki langan tíma fyrir Val að bæta við marki þegar seinni hálfleikurinn hófst. Elín Metta átti þá skot í slánna á 46. mínútu. Boltinn datt niður í teignum eftir skotið þar sem Ásdís Karen mæti og setti boltann í netið af stuttu færi. Staðan því orðinn 1-3 og róðurinn orðinn þungur fyrir heimakonur.

Þór/KA stelpur náðu ekki að svara eftir markið og því vann Valur nokkuð þægilegan sigur 1-3 og fór á topp deildarinnar með 29 stig.

Af hverju vann Valur?

Þriðja markið sem Valur setur í upphafi seinni hálfleiksins sprengdi blöðruna hjá Þór/KA. Það var aldrei spurning eftir það hvort liðið myndi vinna leikinn. Svekkjandi fyrir heimakonur sem hefðu vel geta komið í veg fyrir markið, að endingu voru líka meiri gæði í Valsliðinu. Þær voru yfir á flestum sviðum leiksins og sýndu það af hverju þær eru að berjast um Íslandsmeistaratitillinn.

Hverjar stóðu upp úr?

Arna Sif var að vanda í öðrum gæðaflokki hjá Þór/KA og kom líklega í veg fyrir að mörkin yrðu fleiri. Harpa gerði oft ansi vel í markinu.

Þá áttu flestar í Valsliðinu frábæran leik. Ásdís Karen var mjög góð. Elín Metta var stöðugt að vinna í framlínunni. Miðjan hjá Val var líka virkilega góð og nánast ekkert sem fór í gegnum varnarlínuna.

Hvað gekk illa?

Mér fannst miðja Þór/KA eiga við ofurefli að etja á móti miðjumönnum Vals. Valskonur voru yfir á flestum sviðum þá helst inn á miðjunni en áberandi á öðrum stöðum á vellinum líka. Valskonur voru fyrri til á flesta bolta, héldu honum vel og virkaði erfitt fyrir Þór/KA þegar þær lentu ein á móti einum. Sóknarleikurinn var svo mjög slakur hjá Þór/KA þrátt fyrir markið sem kom upp úr mistökum hjá Valskonum en þá var sóknarleikurinn mjög bitlaus.

Hvað gerist næst?

Þór/KA fær annað krefjandi verkefni í næstu umferð en þá mætir Breiðablik á SaltPay völlinn. Valur heimsækir Fylkir í Árbæinn. Báðir leikir fara fram 24. júlí næstkomandi.

Andri Hjörvar: Gáfum allavega tvö mörk

Andri Hjörvar var svekktur í leikslok.

„Við komum hingað í dag í þennan leik með hausinn hátt og kassann úti, gott sjálfstraust og ætluðum svo sannarlega að sækja meira en þetta en við gáfum þeim allavega tvö mörk. Ef þú gerir það þá færðu lítið út úr leikjum,“ sagði Andri Hjörvar þjálfari Þór/KA eftir 1-3 tap á mót Val í heimavelli í dag.

„Við byrjuðum leikinn ágætlega og komum til baka eftir að hafa fengið mark á okkur þannig að þá fannst mér við alveg eiga von í þessum leik og gætum gert eitthvað meira. Svo komu bara gjafir frá okkur varðandi mörk og það datt úr þessu botninn hjá okkur en mér fannst við reyna allan leikinn. Stelpur af bekknum komu inn á með kraft en því miður dugði það ekki til.“

„Þriðja markið var líka bara gjöf í þessum leik, ég skil ekki alveg hvað fór þarna á milli hjá leikmönnum. Boltinn í loftinu heil lengi og svo dettur hann niður og þar er Valsstelpa sem ræðst á hann fyrst og potar honum inn. Það er alls ekki nógu gott. Við þurfum að vera klárar í 90. mínútur og allar sekúndurnar í hverri mínútu telja. Það má ekki missa einbeitinguna þá geta svo mörk komið.“

Tveir erlendir leikmenn hafa verið sendir annað eftir að hafa gengið til liðs við Þór/KA fyrir mót. Sömuleiðis misstu þau stóran póst í vikunni þegar María Catharina Ólafsdóttir Gross fór utan í atvinnumennsku og því hópurinn orðinn ansi þunnskipaður.

„Við höfum verið eins og flest önnur lið í deildinni með allar klær úti og reynt að finna leikmenn í staðinn fyrir þá sem við misstum en þetta er erfiður markaður og það er ekkert víst að við fáum eitthvað fyrir lokinn. Við eigum mjög ungar stelpur sem hafa verið í hóp hjá okkur og æft með okkur. Þær eru að koma til baka þannig að við erum alltaf með hóp. Við höfum verið að leita að styrkingu en það verður bara að koma í ljós hvort það tekst fyrir gluggalok.“

„Þetta kom fljótt upp með Maríu. Ung og efnileg stelpa sem hefur alla burði til að gera eitthvað erlendis. Þetta er gott tækifæri, ég fagna því og óska henni góðs gengis í sínum verkefnum.“

Þór/KA mætir Breiðablik á SaltPay vellinum eftir fjóra daga.

„Þrír hörkuleikir í röð. Við erum mjög spenntar og okkur þykir ekkert skemmtilegra en að takast á við bestu liðin í deildinni. Selfoss leikurinn sveið rosalega þar sem við fengum bara eitt stig en hefðum viljað þrjú. Við hengjum ekkert haus þrátt fyrir tapið í dag og förum í leikinn á móti Breiðablik til að vinna.“

Pétur Pétursson: Verðum að vera tilbúnar að vinna alla leiki

Pétur Pétursson, þjálfari Vals, var ánægður með stigin þrjú.Vísir/Vilhelm

„Ég er bara mjög ánægður að vinna Þór/KA. Það er alltaf erfitt að koma norður og vinna leikina sem við spilum á þessum velli. Mér fannst bara gæðin á tímabili í leiknum mjög góð hjá okkur, bæði spilamennskan og að skapa okkur færi. Oftast þegar það gerist þá klárum við færin okkar. Þannig að þetta var bara mjög ánægjulegt,“ sagði Pétur Pétursson þjálfari Vals eftir 1-3 sigur á Þór/KA í dag.

Valur gerði jafntefli gegn Þór/KA þegar liðin mætust í júní.

„Það voru einhverjar breytingar frá því síðast þegar við spiluðum við þær og gerðum þetta jafntefli en ég held að helsti munurinn hafi verið að stelpurnar mínar voru bara tilbúnar í slaginn í dag.“

Valur hefur verið að skora mikið af mörkum í síðustu leikjum, sé bara horft á síðustu tvo leikinn hefur Valur skorað 12 mörk.

„Við byrjuðum mótið á að vera í veseni, meiddir leikmenn og fleira en við erum búinn að endurheimta megnið af okkar mannskap og erum búinn að æfa vel. Það er það sem skiptir máli og er að skila okkur þessum mörkum inn á vellinum.“

Mary Alice gerðist sek um mistök í markinu sem Valur fékk á sig í leiknum.

„Það koma alltaf einhver mistök í leikjum og stundum færðu mörk á þig út af mistökunum og stundum ekki og þannig er það bara.“

Framundan er leikur á móti Fylki.

„Leikurinn sem skiptir mestu máli er á móti Fylki sem er á miðvikudaginn, annað skiptir ekki máli varðandi deildina. Sá leikur verður erfiður. Við verðum að vera tilbúinn til að vinna alla leiki annars er þetta vesen.Við erum að spila fótbolta mjög vel hjá okkur núna og við skulum vona að það haldi áfram.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira