Tónlist

Á­greiningurinn leystur og fagnað með tón­leika­ferða­lagi

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Hljómsveitin Hipsumhaps gaf út plötuna Lög síns tíma í maí. Platan var fjarlægð af Spotify um stund, en er nú aðgengileg á nýjan leik.
Hljómsveitin Hipsumhaps gaf út plötuna Lög síns tíma í maí. Platan var fjarlægð af Spotify um stund, en er nú aðgengileg á nýjan leik. Anna Maggý

Aðdáendur Hipsumhaps geta tekið gleði sína á ný því platan, Lög síns tíma, er orðin aðgengileg á streymisveitunni Spotify á nýjan leik eftir að hafa verið fjarlægð í síðustu viku. Það vakti mikla athygli þegar nýjasta plata hljómsveitarinnar var fjarlægð sökum ágreinings á milli Fannars Inga Friðþjófssonar, forsprakka hljómsveitarinnar og plötuútgáfunnar Record Records.

Hipsumhaps sendi í dag frá sér tilkynningu þess efnis að platan væri nú aðgengileg á streymisveitum. Hann segir málið hafa tekið mikið á sig persónulega. Hljómsveitin ætlar að fagna áfanganum með tónleikaferðalagi um landið.

Fyrsta stopp á tónleikaferðalaginu verður í Hrísey í kvöld. Því næst mun hljómsveitin leika fyrir Akureyringa á Græna hattinum annað kvöld.

„Allir glaðir“

Ágreiningurinn snerist um einkaleyfissamning sem gerður hafði verið og Fannar Ingi rifti vegna meintra vanefnda af hálfu útgáfunnar. Record Records vísaði þeim ásökunum á bug og taldi riftun samningsins vera ólögmæta.

Haraldur Leví Gunnarsson, eigandi Record Records sagði í samtali við Vísi að samkomulag hefði náðst og að málið væri því leyst. Record Records kemur ekki að útgáfu plötunnar með neinum hætti. „Ég held að þetta sé bara fyrir bestu. Það eru bara allir glaðir,“ segir Haraldur Leví.

Hljómsveitin heldur af stað í tónleikaferðalag um landið sem hefst í Hrísey í kvöld.Anna Maggý

Tengdar fréttir

Record Records vísar á­sökunum um van­efndir á bug

Plötuútgáfan Record Records hefur sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að útgáfuréttur nýjustu plötu Hipsumhaps sé ennþá í þeirra höndum. Riftun einkaleyfissamnings af hálfu hljómsveitarinnar hafi verið ólögmæt.

Hipsumhaps gefur út nýja plötu

Önnur breiðskífa Hipsumhaps er komin út ber heitið Lög síns tíma. Um er að ræða samtímaverk sem að hefur verið í vinnslu frá því að samkomubannið var sett á í mars á síðasta ári






Fleiri fréttir

Sjá meira


×