Innlent

Telur sjómenn hlunnfarna um tíu milljarða árlega

Jakob Bjarnar skrifar
Daði Már segir verðmyndun á fiski gallaða. Á hinni samsettu mynd má sjá steinbít, þá verðmætu sjávarafurð.
Daði Már segir verðmyndun á fiski gallaða. Á hinni samsettu mynd má sjá steinbít, þá verðmætu sjávarafurð. vísiir/vilhelm/aðsend

Daði Már Kristófersson, prófessor í auðlindahagfræði og varaformaður Viðreisnar, segir opinbert verð á fiski 27 prósentum lægra en fyrirliggjandi verðmæti fisks segir til um.

Þetta kemur fram í grein sem Daði skrifar og birtir á Vísi. Þar rekur hann hvernig verðmyndun á fiski verður til og segir að ef það væri rétt ætti afkoma í fiskvinnslu að vera svipuð og í atvinnulífinu á Íslandi almennt.

„Hagnaður, umfram eðlilega ávöxtun á bundnu fjármagni, ætti þannig einungis að vera til staðar í veiðum,“ segir Daði Már og bendir á að nú vilji svo vel til að fyrir liggur nýlegt mat á umframhagnaði í sjávarútvegi á Íslandi í greininni Resource Rent and its Distribution in Iceland's Fisheries sem birtist í fyrra í Marine Resource Economics. Og hann spyr hvernig fiskverð ætti að vera ef fiskur væri verðlagður sem sú takmarkaða auðlind sem hann er? Samkvæmt fyrrnefndum niðurstöðum er opinbert verð á fiski, það sem notað er við útreikning veiðigjalds og uppgjöri við sjómenn, 27% lægra en verðmæti fisks segir til um.

„Þetta virðist kannski sakleysislegur munur en áhrifin á stofn veiðigjalds eru tvöföldun,“ segir Daði: Veiðigjald er því um helmingur af því sem væri ef fiskverð endurspeglaði verðmæti fisks. Og sjómenn og útgerðin hafa lengi deilt um fiskverð, af fyrrnefndri ástæðu.

„Hverju mundi muna ef við notum verðmæti fisks í að reikna laun sjómanna? Niðurstaðan er að aflahlutir sjómanna hefðu verið tæpum 10 milljörðum hærri á ári að meðaltali undanfarin áratug. Deilur sjómanna og útgerða verða leystar við samningaborðið. Hér er því um reikniæfingu að ræða – en hún undirstrikar mikilvægi fiskverðs.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×