Innlent

Kona nýkomin frá útlöndum fékk hríðir á sóttkvíarhóteli

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Konan dvaldi ásamt fjölskyldu sinni í sóttkví á Hótel Kletti.
Konan dvaldi ásamt fjölskyldu sinni í sóttkví á Hótel Kletti. Hótel klettur

Reiknað er með að Hótel Rauðará við Rauðarárstíg verði tekið í notkun sem nýtt sóttkvíarhótel í dag. Fimm flugvélar með farþega frá hááhættusvæðum eru væntanlegar til landsins síðdegis. Þá hefur ýmislegt gengið á á sóttkvíarhótelum landsins, að sögn umsjónarmanns; aðfaranótt laugardags fékk kona hríðir á sóttkvíarhóteli í Reykjavík.

Með opnun hótel Rauðarár verða sóttkvíarhótel á fjórum stöðum í Reykjavík. Gylfi Þór Þorsteinsson umsjónarmaður sóttvarnahúsa Rauða krossins áætlar að nú í morgun séu hátt í fimm hundruð gestir á hótelunum. Von er á mörgum farþegum til landsins í dag en alls átta flugvélar eru á áætlun á Keflavíkurflugvelli.

„Það eru að koma held ég einhverjar fimm vélar frá rauðum löndum og þar á meðal frá Póllandi og það er mikið af fólki sem kemur vanalega frá þessum löndum sem við þurfum að hýsa,“ segir Gylfi.

„Einhverjar sýnatökur eru í dag en þetta væru líklegast einhvers staðar á bilinu fimm til sex hundruð manns sem verða hjá okkur eftir daginn, gæti teygt sig yfir sex hundruð.“

Gylfi Þór Þórsteinsson umsjónarmaður farsóttarhúsa.Vísir/vilhelm

Farþegar frá Póllandi geta nú sótt um undanþágu frá dvöl á sóttkvíarhóteli. Gylfi segir að undanfarið hafi það færst í aukana að fólk sæki um undanþágu.

„En undanþága er ekki veitt nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, við vitum ekki fyrr en vélin í raun lendir og fólk afgreitt út úr tolli hverjir koma og hverjir ekki, það þýðir það að við þurfum að vera undirbúin undir það að taka á móti fleirum en færri.“

Gylfi segir að lítið hafi verið um partístand á sóttkvíarhótelunum um helgina en ýmislegt hafi þó gengið á. Aðfaranótt laugardags fékk erlend kona, sem nýkomin var til landsins ásamt fjölskyldu sinni, hríðir á Hótel Kletti, einu sóttkvíarhótelanna.

„En sem betur fer komst hún upp á fæðingardeild áður en af því varð þannig að líf eru farin að fæðast í farsóttarhúsum.“

Móður og barni heilsast vel, að sögn Gylfa, og ætti fjölskylda konunnar að losna úr sóttkví eftir sýnatöku í dag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.