Menning

Tónskáld óttast „menningarslys“ í Hallgrímskirkju

Kjartan Kjartansson skrifar
Kantor Hallgrímskirkju og sóknarnefnd hennar náðu ekki saman um áframhaldandi störf hans. Niðurstaðan er að bæði hann og kórar tveir hverfa frá kirkjunni.
Kantor Hallgrímskirkju og sóknarnefnd hennar náðu ekki saman um áframhaldandi störf hans. Niðurstaðan er að bæði hann og kórar tveir hverfa frá kirkjunni. Vísir/Vilhelm

Yfirstjórnendur Þjóðkirkjunnar eru hvattir til þess að grípa í taumana og forða „skelfilegu menningarslysi“ í tónlistarmálum Hallgrímskirkju í ályktun sem aðalfundur Tónskáldafélags Íslands samþykkti í gær. Deilur hafa geisað á milli sóknarnefndar Hallgrímskirkju og tónlistarstjóra hennar.

Greint var frá því á dögunum að Hörður Áskelsson, kantor og organisti Hallgrímskirkju til fjörutíu ára, láti af störfum um mánaðamótin. Með starfslokum hans hverfa Mótettukór Hallgrímskirkju og Schola cantorum einnig úr kirkjunni.

Tónskáldafélagið mærir Hörð og störf hans í kirkjunni í ályktun sinni. Hann hafi byggt upp tónlistastarf sem teljist hliðstætt við það sem best gerist á meðal þjóða sem Ísland beri sig saman við. Sóknarnefndin hafi nú leyst þetta starf upp með þeim afleiðingum að Hörður og kórar kirkjunnar hverfi á braut.

„Aðalfundur Tónskáldafélags Íslands harmar þessa þróun og vísar því til yfirstjórnenda kirkjunnar, að þeir grípi í taumana og forði því skelfilega menningarslysi sem hér hefur verið í uppsiglingu,“ segir í ályktuninni.

Lýsir félagið tónlistarstarfinu sem „krúnudjásni“ í starfi Þjóðkirkjunnar. Menningarstarfið í Hallgrímskirkju varði þjóðina alla. Þjóðkirkjan megi síst vera án þess.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.