Lífið

A­gata fyrsti ís­lenski keppandinn í dansi á Special Olympics

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Agata og Lilja Rut dansa hér á móti.
Agata og Lilja Rut dansa hér á móti. Aðsend/Örvar Möller

Agata Erna Jack verður fyrsti íslenski keppandinn á dansmóti á vegum Special Olympics en hún mun keppa í DanceSport World Championship keppninni sem fer fram í Graz í Austurríki í ágúst.

Agata var fyrsti keppandinn í stjörnuflokki í samkvæmisdansi á vegum Dansíþróttasambands Íslands sem fór fram í vor og hefur nú verið valin til að keppa á dansmóti Special Olympics í haust.

Agata er 22 ára Garðbæingur og hefur undanfarin ár æft samkvæmisdans með dansíþróttafélaginu Hvönn. Hún keppir með danskennaranum Lilju Rut Þórarinsdóttur en Agata keppir með svokallaðri pro-am aðferð. Sú aðferð felst í því að keppandi dansar við kennara eða leiðbeinanda en aðeins keppandinn er dæmdur. Þetta kemur fram á vef ÍF sport.

Agata hefur æft dans frá því hún var fjögurra ára gömul. Hún tók sér danshlé um nokkurra ára skeið þegar fjölskyldan flutti til Þýskalands en eftir að Agata útskrifaðist úr framhaldsskóla lá leið hennar aftur á dansgólfið.

Agata hefur æft með Dansfélaginu Hvönn í nokkur ár og þegar DSÍ setti af stað nýjan dansflokk, Stjörnuflokk sem hugsaður er fyrir fólk með stuðningsþarfir eða fatlanir, hvatti þjálfari Agötu hana til að taka þátt í keppni. Agata braut blað í dansíþróttasögunni í vetur þegar hún var valin fyrst í flokknum og varð hún jafnframt fyrsti einstaklingurinn til að keppa í Stjörnuflokki í samkvæmisdansi á dansmóti á vegum DSÍ.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×