Lífið

Ís­lands­mótið í skák: Eyddu vasa­peningunum í humar­veislu

Björn Þorfinnsson skrifar
Eðludrengurinn Guðmundur Kjartansson breytti greinarhöfundi fljótt úr voldugum sporðdreka í taðbjöllu.
Eðludrengurinn Guðmundur Kjartansson breytti greinarhöfundi fljótt úr voldugum sporðdreka í taðbjöllu. Skáksamband íslands

Ég kalla hann eðludrenginn, vin minn og Íslandsmeistarann Guðmund Kjartansson. Ástæðan er sú að þegar tíminn styttist á klukkunni og pressan eykst þá á hann það til að breytast úr vinalegum og ljúfum skáksnillingi yfir í ógurlegt skriðdýr með kalt blóð.

Umbreytingin á sér stað með þeim hætti að Guðmundur, í algleymi einbeitingarinnar, styður fingrum handa sinna á borðið svo að olnbogarnir stingast upp í loftið. Hann reygir hausinn fram, glennir upp augun í leit að besta leiknum í stöðunni og stundum sleikir hann útum til að fullkomna myndlíkinguna.

Tapsár taðbjalla

Við höfum mæst svo oft við taflborðið undanfarna tvo áratugi að ég er farinn að þekkja þennan vin minn ansi vel. Þetta látbragð hans, sem er ekki á nokkurn hátt truflandi svo því sé haldið til haga, kveikir í mér keppnisskapið og ég verð sjaldan jafn einbeittur og gegn eðludrengnum í ham.

Í skák okkar í gær hélt ég að ég væri búinn að snúa á Guðmund og sigur væri innan seilingar. Ég held að hann hafi haldið það sjálfur um tíma og þá kviknaði í eðlunni innra með honum. Ég var fullur sjálfstrausts og óttaðist ekki skriðdýrið á nokkurn hátt. Í rauninni ímyndaði ég mér að ég væri stór og vígalegur sporðdreki sem lúrði með voldugan eiturbroddinn, tilbúinn að veita andstæðingnum náðarhöggið.

En skyndilega fann Guðmundur óvænta vörn. Ég trúði ekki mínum eigin augum og missti gjörsamlega þráðinn. Fljótlega hrundi sjálfstraustið. Á örskotsstundu varð hnarreistur sporðdrekinn að ómerkilegri pöddu, sennilega einhverskonar taðbjöllu, sem eðlan sporðrenndi í einum bita.

Tapið var sárt og gerir líklega út um draumóra mína um efstu sætin í mótinu. Á móti veitir það manni huggun harmi gegn að ljúfmenni eins og Guðmundur njóti góðs af ósigri mínum. Fáir eiga velgengni meira skilið en hann.

Helgi Áss Grétarsson og Jóhann Hjartarson skildu jafnir í gær, en Jóhann var þó hársbreidd frá sigri og er enn í hópi efstu manna, jafn Guðmundi Kjartanssyni og Vigni Vatnari Stefánssyni.Skáksamband íslands

Stirnað smjör á smetti

Guðmundur var ekki hár í loftinu þegar hann byrjaði að mæta á skákæfingar ásamt Ólafi bróður sínum. Hann varð fljótlega einn af allra efnilegustu skákmönnum landsins ekki síst fyrir þá staðreynd að hann gjörsamlega spændi í sig flestar skákbækur sem hann komst yfir. Sumar hverjar afspyrnuleiðinlegar og því ljóst að ekki væri um venjulegt barn að ræða.

Uppáhalds saga mín af þeim bræðrum er þegar fjölmargir ungir íslenskir skákmenn lögðu í víking til Frakklands á stórt alþjóðlegt skákmót árið 2001 en Guðmundur var þá 13 ára gamall.

Flestir vorum við með lítið milli handanna í ferðinni og reyndum því að finna okkur ódýra skyndabitastaði eða stórmarkaði til að borða á. Í einum göngutúr í slíkri leit þá rákum við augun í þá bræður sigri hrósandi inni á einum af flottari veitingastöðum borgarinnar.

Ólafur hafði orð fyrir þeim og sagði okkur óðamála frá því að þeir hefðu rekist á ótrúlegt tilboð á matseðli staðarins, humar á gjafverði. Þeir væru búnir að panta og biðu spenntir eftir veislunni. Guðmundur sat hljóður við hlið bróður síns og brosti allan hringinn.

Eina ástæða þess að við hinir ákváðum ekki að taka þátt í veislunni með þeim bræðrum var vegna tímaskorts. Stutt var í næstu umferð og ekki hægt að bíða lengi eftir matnum. Við ákváðum því að hverfa frá í bili en hétum því að mæta til leiks næsta dag.

Ég varð því ekki vitni að sjálfri máltíðinni en ég hef alltaf séð þá bræður fyrir mér sitjandi við þetta fína borð með fallega silkismekki troðið ofan í hálsmálið. Ískrandi af gleði yfir gæfu sinni. Guðmundur spriklandi í of stórum stól að sleikja hvítlaukssmjörið nautnalega af fingrum sínum.

Þegar reikningurinn kom á borðið fór gamanið að kárna. Tilboðið góða, um 20 evrur minnir mig, var ekki verðið á allri humarmáltíðinni heldur fyrir hver 100 grömm. Þeir bræður höfðu þá graðkað í sig nokkrum kílóum. Brosið stirnaði á smjörglansandi andlitum þeirra.

Skyndilega var vasapeningur ferðarinnar svo gott sem uppurinn og neyddust þeir til að hringja heim og óska eftir frekari fjárheimildum. Mögulega í fyrsta sinn sem drengir á barnsaldri hringja út aðstoð því þeir hafi eytt öllum peningunum í humar.

Teflt með rjómablíðu á hliðarlínunni í gær.Skáksamband íslands

Kundalini-Mundi

Ég er með þá langsóttu kenningu að þessi reynsla hafi setið í Guðmundi. Hvítlauksleginn humarinn vék fyrir hugleiðslu og hófsemi, munaður fyrir meinlæti. Hann neytir ekki áfengis, notar ekki samfélagsmiðla og einbeitir sér að skákinni og að rækta andann.

Árið 2016 ferðuðumst við Guðmundur til Kósóvó til að taka þátt í Evrópumóti einstaklinga í skák. Mótið tók um tvær vikur og ég þá varð ég óþyrmilega var við þennan áhuga Guðmundar á hugleiðslu og svokölluðu Kundalini-jóga.

Hann byrjaði alla daga á langri hugleiðslu með viðeigandi tónlist og muldraði einhverjar möntrur samhliða. Síðan lauk hverjum degi með sama hætti.

Guðmundur stúderaði skák grimmt inni á milli en tók sér síðan reglulega pásur til að hringja í vini sína í tölvunni sem reyndust aðallega vera frá Suður-Ameríku. Og tilgangur símtalanna að sögn Guðmundar? Nú að læra spænsku.

Eftir fjórtán daga fór ég þó að gruna Guðmund um græsku enda voru þetta allt einhverjar Gloríur og Gísellur en aungvir Gabríelar né Gilbertóar. Ég held að hann hafi verið með að eitthvað langtímaplan í gangi sem snerist um að halda öllum möguleikum opnum á borðinu eins og góðra skákmanna er siður.

Þannig liðu því þessar tvær vikur í Kósóvó eins og ærandi Bollywood-mynd á blaðskellandi spænsku leikstýrt af Kundalini-Munda. Eitthvað hlaut að láta undan.

Skemmst er að segja frá því að ég tefldi skelfilega illa á mótinu og endaði síðan sem höfuðpaur í klassískri rifrildafrétt eftir Jakob Bjarnar - saklaus maðurinn í þokkabót. Öldudalurinn verður vart dýpri.

Það þarf því engan að undra að ég hafi talið það brýnt mál að skrifa þessa frétt um sögulegt ósætti.

Gríðarleg spenna í Kársnesinu

Staðan eftir fimmtu umferð.Skáksamband íslands

Íslandsmótið sjálft er ævintýralega spennandi. Jóhann Hjartarson er enn í hópi efstu manna eftir jafntefli í gær gegn Helga Áss Grétarssyni. Jóhann var hársbreidd frá sigri og ef hann vinnur ekki titilinn þá mun hann horfa til þeirra tækifæra sem hafa glatast í síðustu tveimur umferðum.

Eðludrengurinn er svo einnig kominn á toppinn og ungstirnið Vignir Vatnar heldur áfram góðu gengi. Hann varðist fimlega gegn Hannesi Hlífari í gær sem að er ekki öllum gefið.

Bragi bróðir tapaði svo í spennandi skák gegn Hjörvari Steini. Bragi var eini taplausi keppandi mótsins fyrir umferðina og núna hafa því allir lotið í gras. Það er runnið eitthvað æði á Braga og hann fórnar peðum í hverri einustu skák. Það er ekki heldur út í neina vitleysu og hann var í raun óheppinn í gær að tapa skákinni.

Sigurbjörn náði síðan að leggja Alexander Mai að velli og komast á blað. Það er að mörgu leyti mannskemmandi að byrja illa á svo sterku móti. Óneitanlega missir maður baráttuþrekið í slíkum aðstæðum og rándýrin á toppnum renna á blóðlyktina. Sigurbjörn á erfitt prógram eftir en þökk sé þessum sigri mun hann mæta upplitsdjarfari til leiks.

Hægt er að lesa nánar um skákirnar og renna yfir þær á skák.is. Þar verður einnig bein útsending í boði frá kl.15.00.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×