Sport

Segir enn mögu­leika á því að hætt verði við Ólympíu­leikana

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nikai segir að hætt gæti verið við leikana vegna slæms ástand í Japan söku kórónuveirunnar.
Nikai segir að hætt gæti verið við leikana vegna slæms ástand í Japan söku kórónuveirunnar. EPA/WU HONG

Toshihiro Nikai, háttsettur stjórnmálamaður í Japan, segir enn möguleika á því að hætt verði við Ólympíuleikana sem fram eiga að fara í sumar. Þetta stríðir algjörlega gegn því sem japanska ríkisstjórnin hefur sagt til þessa.

„Ef það virðist ómögulegt að halda leikana þá verðum við að hætta við þá,“ sagði Nikai í sjónvarpsviðtali. Nikai er aðalritari frjálslynda lýðræðisflokksins í Japan, ráðandi afls í stjórnmálum þar í landi.

Nikai kallaði ekki eftir því að hætt yrði við leikana en ummæli hans stangast á við allt sem japanska ríkisstjórnin og alþjóða Ólympíunefndin, IOC, hafa gefið út til þessa. Samkvæmt þeim eiga leikarnir að hefjast 23. júlí eins og til stóð.

Leikarnir áttu upphaflega að fara fram sumarið 2020 en var frestað vegna kórónufaraldursins. Illa gengur að ráða við faraldurinn í Japan og er talið að fjórða bylgja sé hafin þar í landi.

Mikið ósætti er í Japan með að leikarnir fari fram. Í nýlegri skoðunarkönnun kom fram að 39.2 prósent vilja að hætt verði við leikana og 38.2 prósent vilja að leikunum verði frestað á nýjan leik.

Þá kemur fram í grein Guardian um málið að innan við eitt prósent Japana hefur fengið bóluefni og er ekki víst að búið verði að bólusetja fólk í áhættuhópum áður en leikarnir eiga að hefjast í júlí.


Tengdar fréttir

Engir utanaðkomandi áhorfendur á Ólympíuleikunum

Skipuleggjendur Ólympíuleikanna sem eiga að fara fram í Tokyo í sumar segja að engir utanaðkomandi áhorfendur verði leyfðir. Þetta er gert til að reyna að tryggja öryggi þátttakenda og íbúa Japan gegn kórónuveirunni.

Bannað að snertast en 150 þúsund smokkum dreift

Fremstu íþróttastjörnur heims hafa fengið misvísandi skilaboð í aðdraganda Ólympíuleikanna í Tókýó sem fara fram í sumar þrátt fyrir heimsfaraldurinn sem geysar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.