Sport

Segir af sér sem forseti eftir að hafa sagt að konur tali of mikið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yoshiro Mori hefur unnið í mörg ár að undirbúningi Ólympíuleikanna í Tókýó en stígur nú til hliðar nokkrum mánuðum fyrir leikanna.
Yoshiro Mori hefur unnið í mörg ár að undirbúningi Ólympíuleikanna í Tókýó en stígur nú til hliðar nokkrum mánuðum fyrir leikanna. AP/Kim Kyung-hoon

Yoshiro Mori, forseti undirbúningsnefndar Ólympíuleikanna í Tókýó, hefur ákveðið að segja af sér aðeins nokkum mánuðum fyrir leikana.

Ólympíuleikarnir í Tókýó áttu að fara fram í fyrra en var frestað til næsta sumars vegna kórónuveirufaraldursins.

Það eru ummæli Yoshiro Mori um konur sem hafa vakið upp það sterk viðbrögð og mikla óánægju að hann er nauðbeygður til að segja af sér.

Hann er 83 ára gamall og hefur verið þekktur fyrir misgáfuleg ummæli í gegnum tíðina.

Yoshiro Mori lét þau orð falla í viðtali við japanskan fjölmiðil að að ef fjölga ætti konum í undirbúningsnefnd Ólympíuleikanna þá þyrfti að takmarka tímann sem þær fá að tala því þær töluðu of mikið á fundum.

Ummælin hafa skiljanlega vakið upp mikla reiði og mótmæli í Japan. Nú er orðið ljóst að eina leiðin fyrir Yoshiro Mori var að segja þetta gott.

Alþjóðaólympíunefndin hefur fordæmt ummæli Mori og þá hafa yfir fjögur hundruð sjálfboðaliðar hætt við að bjóða fram aðstoð sýna á Ólympíuleikunum vegna ummælanna. Pressan var líka orðin mikil frá styrktaraðilum leikanna eins og dæmi japanska bílaframleiðandann Toyota sem er einn stærsti bakjarl Ólympíuleikanna.

Mori var búinn að biðjast afsökunar á ummælum sínum en ætlaði þá ekki að segja af sér. Það dugði ekki til að lægja öldurnar og nú hefur hann látið undir pressunni og sagt af sér.

Mori hafði sagt frá því í viðtali að kona sín hefði tekið hann í gegnum vegna ummælanna og að bæði dóttir sín og dótturdóttir hefði líka látið hann heyra það.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.