Innlent

Ein stærsta lúxussnekkja heims á Akureyri

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þessi mynd af snekkjunnu er tekin við Vigo á norðvestur Spáni í síðasta mánuði. 
Þessi mynd af snekkjunnu er tekin við Vigo á norðvestur Spáni í síðasta mánuði.  EPA-EFE/SALVADOR SAS

Ein stærsta snekkja í heimi, sem ber nafnið Sailing Yacht A og er í eigu rússneska auðjöfursins Andrey Melnichenko, sigldi inn Eyjafjörð í kvöld og er stödd við Akureyri. Að því er greint er frá á akureyri.net í kvöld verður snekkjan í Krossanesvíkinni á næstunni, jafnvel í einhverjar vikur.

Snekkjan er 142.81 metra löng og möstrin eru um hundrað metra há og geta truflað flugumferð að því er segir í frétt akureyri.net. „Andrey Igorevich Melnichenko er 49 ára milljarðamæringur. Samkvæmt viðskiptaritinu Forbes var hann 95. ríkasti maður heims í síðasta mánuði og 7. ríkasti Rússinn. Hann er ekki um borð í A skv. heimildum Akureyri.net en er væntanlegur,“ segir í fréttinni.

Forbes fjallar ítarlega um snekkjuna í frétt á vef sínum í gær þar sem segir að gjaldþrot blasi við skipasmíðastöðinni Nobiskrug, þar sem A var framleidd. Segir meðal annars að fjárhagur fyrirtækisins hafi beðið hnekki vegna snekkjusmíði sem hafi haft neikvæðar afleiðingar á fjárfestingar og hagnaðartækifæri fyrirtækisins sem var stofnað árið 1905 og er þekkt fyrir smíði margra af mestu lúxussnekkjum í heimi.

Fréttin hefur verið uppfærð: Í upphaflegri útgáfu kom fram að snekkjan væri 119 metra löng. Hið rétta er að hún er 142,81 meter á lengd, samkvæmt upplýsingum frá fulltrúum Andrey Melnichenko. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×