Það heitir Sigfúsarhús og var reist árið 1895. Þar var lengi verslun en síðast félagsmiðstöð aldraðra. Núna er þetta virðulega hús að fá nýtt en óvenjulegt hlutverk, að því er greint var frá í fréttum Stöðvar 2.

„Hér erum við að gera upp þetta hús og erum að búa til hinsegin listamannadvöl, eða „residency“ eins og það er kallað á ensku,“ segir Hákon Guðröðarson, einn eigenda Hótels Hildibrands og stofnandi Queer in Iceland ásamt Hafsteini Hafsteinssyni.
„Þetta hús verður að hluta heimili okkar Hafsteins, mannsins míns, sem er listamaður, og að hluta verða hérna fimm herbergi fyrir gesti og vinnustofur.“

Upprunalegum stíl hússins er blandað við anda nýs hlutverks.
„Við látum húsið njóta sín eins og það var en jafnframt að það sé hýrt - öðruvísi og skemmtilegt – og gerum það kannski í veggfóðrinu og málningunni og slíku,“ segir Hákon.
Stefnt er að því að taka inn þrjá hópa á ári, sex vikur í senn, einkum að vetri.
„Við erum fyrst og fremst að höfða til hinsegin listamanna og fræðimanna. Þetta eru náttúrlega orðin stór fræði. Það er verið að skoða ýmislegt bæði með hinsegin- og kynjagleraugum.
Þannig að það er kannski ekki endilega að gestirnir okkar séu einhverstaðar á rófinu hinsegin. Það getur líka verið að vinna með eitthvað sem tengist þessum þræði, þessari línu. Þú gætir verið að skoða hlut kvenna í sögunni eða slíkt. Ef þig vantar aðstöðuna, og ert á þessari línu, þá höfum við plássið til að taka á móti.“

Hákon telur staðsetningu á Norðfirði fjarri Reykjavík vera kost.
„Eiginlega allt svona starf, sem fer fram í heiminum, hinsegin stofnanir og þessar tvær aðrar „residensíur“ sem eru til sambærilegar, þetta er allt saman tengt borgum.“
Ísland og dreifbýli með friði og ró sé spennandi.
„Þegar fólk dvelur svona lengi þá skapar það svo mikið efni. Það póstar svo miklu á netinu um dvölina sína. Svo fer það heim og þá er það eins og litlar ferðaskrifstofur. Segja öllum frá: Þegar þú ferð til Íslands þá verður þú að koma þarna við og stoppa.“

Listamennirnir verði lifandi auglýsing.
„Og svona skapar bænum einhverja svona öðruvísi menningarlega sérstöðu sem hvergi annars staðar er til á landinu og bara til á tveimur öðrum stöðum í heiminum í dag,“ segir Hákon Guðröðarson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: