Innlent

Stefán Vagn og Lilja Rannveig leiða lista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Stefán Vagn Stefánsson og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir munu leiða lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi alþingiskosninum.
Stefán Vagn Stefánsson og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir munu leiða lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi alþingiskosninum.

Stefán Vagn Stefánsson hlaut flest atkvæði í póstkosningu Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi vegna komandi alþingiskosninga. Stefán Vagn hlaut 580 atkvæði í fyrsta sæti og þá hlaut Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir 439 atkvæði í fyrsta og annað sæti en hún sóttist eftir öðru sæti. Halla Signý Kristjánsdóttir, sitjandi þingmaður Framsóknarflokksins, hlaut 418 atkvæði í fyrsta til þriðja sæti.

Þá hlaut Friðrik Már Sigurðsson 526 atkvæði í fyrsta til fjórða sæti og Iða Marsibil Jónsdóttir hlaut 563 atkvæði í fyrsta til fimmta sæti.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá kjörstjórn Framsóknarflokksins. Líkt og kunnugt er gaf Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og oddviti Framsóknarflokksins í kjördæminu, ekki kost á sér í kjördæminu fyrir komandi alþingiskosningar. Í ljósi niðurstöðu póstkosningarinnar liggur jafnframt fyrir að erfiðara verður fyrir Höllu Signýju að tryggja sér áframhaldandi setu á Alþingi.

Tíu gáfu kost á sér í póstkosningunni þar sem kosið var um fimm efstu sæti listans fyrir komandi kosningar. 1995 voru á lista og var þátttaka 58 prósent. Það verða því fyrrnefndir fimm aðilar sem munu verma efstu fimm sætin á lista flokksins í alþingiskosningunum sem fram fara í haust.

Stefán Vagn er forseti sveitarstjórnar í Skagafirði og lögreglumaður og Lilja Rannveig er formaður Sambands ungra Framsóknarmanna.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×