Anníe Mist hefur unnið marga sigra á frábærum ferli sínum og sú prófraun sem bíður hennar í endurkomunni gæti án efa endað í þeim flokki takist henni að komast aftur í hóp þeirra hraustustu í CrossFit íþróttinni.
„Ég er svo spennt fyrir morgundeginum. Vikan sem CrossFit Open 2021 byrjar. Ekki gleyma ... hafðu alltaf trú á þér og ekki óttast það að gera mistök,“ skrifaði Anníe Mist í færslu á Instagram.
„Gefðu allt þitt í þetta, nýttu þér góð ráð og reyndu að bæta þig í framhaldinu,“ skrifaði Anníe.
„Ímyndaðu þér að ef ég hefði ekki tekið þátt í minni fyrstu CrossFit keppni af því að ég hafði áhyggjur af því að geta ekki staðið mig nógu vel í jafnhendingunni þá er alveg möguleiki á því að líf mitt hefði verið öðruvísi,“ skrifaði Anníe.
„Kannski hefði ég ekki orðið heimsmeistari, kannski hefði ég aldrei hitt þetta ótrúlega fólk eða farið á alla þessa stórkostlegu staði og kannski værir þú þá ekki að lesa þetta núna,“ skrifaði Anníe.
„Ég elska að tala um það að fuglinn á greininni er aldrei hræddur um að greinin brotni af því að hann treystir á vængina sína en ekki sjálfa trjágreinina,“ skrifaði Anníe Mist.
Freyja Mist kom í heiminn 10. ágúst síðastliðinn. Þegar Open hefst 11. mars næstkomandi verða liðnir sjö mánuðir síðan að Anníe Mist varð mamma í fyrsta sinn. Endurkoman hefur reynt á hana enda gengið ekki alveg eins vel og hún bjóst við en það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig henni mun ganga á The Open í ár.