Tíska og hönnun

Drangar eftir Studio Granda tilnefnt til Hönnunarverðlauna Íslands 2020

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Drangar eftir Studio Granda hlýtur tilnefningu til Hönnunarverðlauna Íslands fyrir árið 2020.
Drangar eftir Studio Granda hlýtur tilnefningu til Hönnunarverðlauna Íslands fyrir árið 2020. Nombre del Proyecto

Sjálfbærni, endurnýting, náttúra og vellíðan eru lykilorðin þegar kemur að tilnefningum til Hönnunarverðlauna Íslands árið 2020. Tilnefningarnar verða allar tilkynntar hér á Vísi.

Aðra tilnefninguna til Hönnunarverðlauna Íslands 2020 hlýtur verkefnið Drangar eftir Studio Granda. 

Hér fyrir neðan má lesa rökstuðning dómnefndar:

„Drangar er metnaðarfullt hönnunarverkefni arkitektastofunnar Studio Granda og afar vel heppnuð birtingarmynd aðkallandi viðfangsefnis arkitekta i nútímasamhengi, endurhugsun og endurnýting gamalla bygginga. Hér er sérstaklega vel útfærð breyting á gömlu sveitabýli og útihúsum í gisthús fyrir ferðamenn. Veðraðar byggingarnar fá að njóta sín og halda útlitslegu yfirbragði með sterkri vísun í sögu og samhengi, en um leið er heildarmynd staðarins styrkt og efld. Dæmi um það er samspil útveggja gistihússins þar sem gömlu veggirnir standa hráir og opnir, án glugga og hurða og mynda áhrifaríkt samspil skugga og takts við nýja veggi. Innra rýmið markast af hlýlegri eik og litum dregið saman milli bygginga og rýma með hlýrri notkun timburs og lita. Mismunandi litatónar og áferð lita eru vísun í fyrri virkni býlisins, t.d. í lit nautgripa eða gljástig vinnuvéla. Öll efnisútfærsla er sérlega vönduð og tengir rýmin saman í umlykjandi ramma um lífið innan byggingarinnar. Verkið er mikilvægt fordæmi og viðmið í ljósi vaxandi fjölda bygginga, ekki síst á landsbyggðinni, sem kalla á endurskilgreiningu og endurbyggingu vegna aldurs og annars konar nýtingar.“

Nombre del Proyecto
Nombre del Proyecto
Nombre del Proyecto

Um verkefnið:

Drangar er nýtt gistiheimili byggt ágömlum grunni, staðsett á Snæfellsnesi. Hannað af Studio Granda.

Um arkitekta

Studio Granda er arkitektastofa, stofnuð af þeim Margréti Harðardóttur & Steve Christer árið 1987.

Studiogranda.is 

Hér fyrir neðan má sjá kynningu á annarri tilnefningunni til Hönnunarverðlauna Íslands 2020. Myndbandið er framleitt af Blóð studio.

Klippa: Tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands 2020 - Studio Granda

Beina sjónum að því besta

Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs, enda er vægi hönnunar í menningu, samfélagi og viðskiptalífi alltaf að aukast.

Hönnunarverðlaun Íslands beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning. Verðlaunin eru veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða stofu fyrir framúrskarandi ný verk; einstakan hlut, verkefni eða safn verka. Hönnuðir þurfa að vera félagar í einu af aðildarfélögum Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs eða fagmenn á sínu sviði til að hljóta verðlaunin. Ný verk eru verk sem lokið hefur verið við á síðustu tveim til þremur árum fyrir afhendingu verðlaunanna.

Tilnefningarnar til Hönnunarverðlauna Íslands verða allar tilkynntar hér á Vísi. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs

Milljón króna peningaverðlaun

Við val á verðlaunahafa er haft í huga að verið er að leita að framúrskarandi verki, eða safni verka, sem standa á sem fulltrúi þess besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs. Verkið/verkin þurfa að vera einstök, fela í sér frjóa hugsun, snjalla lausn, vandaða útfærslu og fagmennsku í vinnubrögðum. Hönnunarverðlaun Íslands eru peningaverðlaun að upphæð 1.000.000 krónur, sem hafa verið veitt af ráðherra ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunar.

Besta fjárfesting í hönnun er viðurkenning sem veitt var í fyrsta sinn 2015. Fyrirtæki sem eiga þess kost að hljóta viðurkenninguna Besta fjárfesting í hönnun hafa hönnun og arkitektúr að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfi. Öll fyrirtæki sem starfa á Íslandi koma til greina.

Miðstöð hönnunar og arkitektúrs stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Landsvirkjun, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.

Nánar á síðu Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.