Sport

Ólympíumeistari meðal óeirðaseggja Trumps sem réðust inn í þinghúsið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Klete Keller er hér lengst til vinstri við hlið Michael Phelps en hinir í þessari gullsveit Bandaríkjanna eru þeir Ryan Lochte og Peter Vanderkaay.
Klete Keller er hér lengst til vinstri við hlið Michael Phelps en hinir í þessari gullsveit Bandaríkjanna eru þeir Ryan Lochte og Peter Vanderkaay. Getty/Al Bello

Æfingafélagar og þjálfarar frægs bandarísks sundmanns komu upp um þátttöku hans í innrásinni í þingsalinn í Capitol byggingunni þegar var verið að staðfest kjör Joe Biden sem Bandaríkjaforseta.

Klete Keller vann tvö Ólympíugull sem liðsfélagi Michael Phelps en í síðustu viku var hann einn af stuðningsmönnum Donalds Trump sem brutust inn í Þinghúsið í Washington DC.

Myndband, sem blaðamaður hjá Townhall setti inn, virðist sýna það og sanna að umræddur Klete Keller hafi verið meðal óeirðaseggja Donalds Trump þennan afdrifaríka dag.

Æfingafélagar hans og þjálfarar þekktu hann bæði á stærðinni sem og að hann klæddist bandaríska Ólympíujakkanum sínum. Klete Keller er 198 sentimetrar á hæð og því oft auðþekkjanlegur á hæð sinni. Klete Keller var líka búinn að taka niður grænu grímuna sína og andlit hans sást því vel í þessu myndbandi.

Keller hefur margoft sýnt stuðning sinn við Donald Trump á samfélagsmiðlum og það þarf því ekki að koma neinum á óvart að hann styðji Trump.

Keller er nú 38 ára gamall en hann fór á þrjá Ólympíuleika og vann verðlaun á þeim öllum. Hann vann gullverðlaun á leikunum í Aþenu 2004 og í Peking 2008 sem hluti af sveit Bandaríkjamanna í 4 x 200 metra boðsundi. Hann vann síðan silfur með sömu sveit á leikunum í Sydney 2000.

Keller var öflugur skriðssundsmaður en hann var tvö Ólympíubronsverðlaun í einstaklingsgreinum eða í 400 metra skriðsundi bæði í Sydney 2000 sem og í Aþenu 2004.

Keller vann einnig tvenn gullverðlaun með boðsveit Bandaríkjamanna á heimsmeistaramóti í 50 metra laug og þá varð hann heimsmeistari í 200 metra skriðsundi á HM í 25 metra laug í Moskvu árið 2002.

SwimSwam sagði fyrst frá því að Klete Keller hafi tekið þátt í innrásinni og miðilinn fékk það seinna staðfest að Keller hafi í framhaldinu misst vinnu sína hjá Hoff & Leigh í Colorado Springs. Fyrirtækið kom fyrst af fjöllum en seinna um daginn hafði það fjarlægt allt af miðlum þess um að Keller hafi einhvern tímann unnið þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×