Innlent

Hafa þurft að hafna nýjum nemendum

Sveinn Arnarsson skrifar
Fjölbrautaskóli Snæfellinga hefur þurft að vísa fólki frá skólanum.
Fjölbrautaskóli Snæfellinga hefur þurft að vísa fólki frá skólanum. Fréttablaðið/pjetur
Fjölbrautaskóli Snæfellinga hefur þurft að neita fjölda einstaklinga um nám á vorönn. Ástæða þess eru breytingar sem gerðar voru á nemendaígildum menntaskólanna í fjárlagafrumvarpinu fyrir þetta ár. Jón Eggert Bragason, skólameistari Fjölbrautaskóla Snæfellinga, segir það bagalegt að þurfa að vísa fólki frá skólanum sem vilji hefja nám á framhaldsskólastigi.

Fjölbrautaskólinn var með 80 dreifnema á haustönn 2014 en þeir eru nú aðeins um 50 á vorönn 2015. Hvatinn til að taka við nýjum nemendum er ekki lengur til staðar að mati skólameistara „Við höfum verið að hafna nýjum dreifnemum á þessu ári,“ segir Jón Eggert.

„Við í Fjölbrautaskóla Snæfellinga erum með ákveðinn nemendakvóta og ráðuneytinu er í sjálfu sér sama hvort það eru dreifnemar eða staðarnemar,“ segir Jón Eggert. Skólinn er að miklu leyti byggður upp á fjarkennslu og voru á síðustu önn um 80 nemendur í dreifnámi eins og það er kallað.

„Dagskólanemendur taka upp stærri hluta kvótans þannig að minna er eftir fyrir nema í svokallaðri fjarkennslu. Þeir eru ekki hópur sem má ekki vera í framhaldsskóla, síður en svo, en það er ekki svigrúm hjá mér til að taka þá inn því skólinn fær ekki greitt fyrir umframnemendur,“ segir Jón Eggert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×