Lífið

Harpa fjölgar Airwaves-miðum

Fleet Foxes spilar ekki á Airwaves-hátíðinni í ár.
Fleet Foxes spilar ekki á Airwaves-hátíðinni í ár. NORDICPHOTOS/GETTY
Um 900 fleiri miðar verða í boði á Iceland Airwaves-hátíðina í október en verið hefur. Ástæðan er sú að Harpa er komin í hóp tónleikastaða og því verður meira pláss en áður fyrir áhorfendur.

Alls verða um sex þúsund manns á hátíðinni ef miðarnir seljast upp og eru þá meðtaldir tónlistarmennirnir og fólkið sem starfar við hátíðina. Um fjögur þúsund miðar verða í boði fyrir almenning.

Að sögn Kamillu Ingibergsdóttur hjá Airwaves verða ekki jafnmargir flytjendur í ár og í fyrra. „Það var metfjöldi í fyrra. Við vildum stimpla hátíðina almennilega inn í fyrra en það verða ekki eins margir í ár," segir hún.

Tólf listamenn hafa bæst við dagskrána, þar á meðal Dale Earnhardt Jr. Jr. frá Bandaríkjunum, Secret Chiefs 3, Jenny Hval og Team Me frá Noregi, Touchy Mob frá Þýskalandi og frændsystkinin Ólöf og Ólafur Arnalds. Einnig hafa Berndsen, Hoffman, Oculus og Just Another Snake Cult bæst í hópinn.

Fréttablaðið greindi frá því á dögunum að aðstandendur Airwaves hefðu reynt að fá bandarísku þjóðlagapopparana í Fleet Foxes á hátíðina en nú er ljóst að ekkert verður af komu þeirra.

Miðasala á hátíðina fer fram á icelandairwaves.is. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.