Lífið

The Saga til Íslands í nóvember

Michael Sadler og félagar í The Saga spila í Vodafonehöllinni 4. nóvember.
Michael Sadler og félagar í The Saga spila í Vodafonehöllinni 4. nóvember.
Kanadíska hljómsveitin The Saga spilar í Vodafonehöllinni 4. nóvember. Sveitin naut töluverðra vinsælda á níunda áratugnum og hennar þekktustu lög eru Wind Him Up, On the Loose og Humble Stance.

„Þetta er búinn að vera tveggja ára prósess,“ segir tónleikahaldarinn Björgvin Rúnarsson um komu The Saga til landsins. „Um leið og Michael Sadler, söngvarinn úr upprunalega bandinu, kom inn í þetta aftur ákváðum við að slá til.“

Hann segir tónlistina höfða meira til eldri tónlistarunnenda en vonast til að fólk úr öllum aldurshópum láti sjá sig í Vodafonehöllinni. „Ég er búinn að hlusta á þetta band í mörg ár,“ segir Björgvin en The Saga hefur gefið út tuttugu hljóðversplötur á ferli sínum.

Björgvin stóð síðast fyrir komu rokkaranna í Whitesnake hingað til lands árið 2008. Tónleikarnir gengu ágætlega og á fjórða þúsund manns mættu. Engu að síður töpuðu Björgvin og félagar töluvert á ævintýrinu.

„Mönnum féllust hendur eftir það gigg. Gengishrunið og allt fór með það út um gluggann. Menn eru búnir að vera að sleikja sárin eins og ýmsir í þessum bransa. Núna gerir maður öðruvísi samninga með útgönguleið ef þér finnst giggið ekki vera að skila sér.“

Miðasala á tónleika The Saga hefst á Midi.is 5. júlí og eru 2.600 sæti í boði. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.