Lífið

Umbreytingar snúa aftur

Shia LaBeouf og Rosie Huntington-Whiteley í hlutverkum sínum í þriðju Transformers-myndinni. Hún er sögð vera sú síðasta í þríleik Michaels Bay en enginn skyldi vanmeta ást Hollywood á gullkálfunum sínum.
Shia LaBeouf og Rosie Huntington-Whiteley í hlutverkum sínum í þriðju Transformers-myndinni. Hún er sögð vera sú síðasta í þríleik Michaels Bay en enginn skyldi vanmeta ást Hollywood á gullkálfunum sínum.
Þriðja myndin um Umbreytingana verður frumsýnd um helgina en þetta á að vera síðasta myndin í þríleik Michaels Bay um vélrænu geimverurnar. Að þessu sinni er allur heimurinn undir.

Transformers 3: Dark of the Moon tekur upp þráðinn þar sem mynd númer tvö, Revenge of the Fallen, skildi við hann. Sam Witwicky og vélrænu vinirnir hans horfast í augu við eitt erfiðasta verkefni sitt fram að þessu þegar undarlegt tæki finnst á tunglinu. Um er að ræða Örkina, vél sem leiðtogi vélrænu geimveranna, Sentinel Prime, bjargaði í miklu stríði milli Autobots (góðu gæjarnir) og Decepticons (vondu vélarnar). En vélin fellur í rangar hendur og Decepticons ógna fljótlega öllu lífríki jarðar.

Michael Bay hefur lýst því yfir að Dark of the Moon sé síðasta myndin hans í þessum svokallaða þríleik. Og það er vel skiljanlegt að Bay vilji binda endahnútinn á þennan kafla í lífi sínu því framleiðslan hefur ekki gengið snurðulaust fyrir sig. Aðalstjarnan, Shia LaBeouf, hefur ekki reynst auðveldur í samstarfi enda þjakaður af stjörnustælum. Til að bæta gráu ofan á svart neyddist Bay til að reka aðalleikkonuna sína, Megan Fox. Leikstjórinn á heiðurinn af því að hafa uppgötvað Fox og gert hana að eftirsóttasta kvenkosti í blautum draumum unglingsdrengja. Fox launaði honum lambið gráa strax eftir fyrstu myndina og talaði um hann sem þrælahaldara og hélt uppteknum hætti eftir mynd númer tvö; þá ákvað Fox að nota Hitlers-samlíkinguna sem fór illa í meðframleiðanda myndanna, Steven Spielberg, og hann krafðist þess að Fox yrði látin fara. Og frú Fox ætti að vita það núna að Spielberg fær það sem hann biður um. Rosie Huntington-Whiteley, ung og óreynd undirfatafyrirsæta, var fengin til að hlaupa í skarðið. „Hún kann þetta hlutverk, að vera kynþokkafull fyrir framan tökuvélarnar,“ var það sem LaBeuof hafði um mótleikkonu sína að segja.

Aðdáendur Transformers þurfa ekki gráta sig í svefn þótt Bay hafi lýst því yfir að þetta sé síðasta myndin hans. Tvær fyrstu myndirnar höluðu inn rúman einn og hálfan milljarð Bandaríkjadollara á heimsvísu í miðasölu og Brian Goldner, forstjóri leikfangarisans Hasbro sem hefur framleitt Transformers-leikföngin í 25 ár, sagði í samtali við fjölmiðla að hann vonaðist til að Bay myndi endurskoða ákvörðun sína. Þá ber auðvitað að líta til þess að Hollywood er aldrei spennt fyrir því að slátra gullkálfum sínum að nauðsynjalausu.

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.